mobile navigation trigger mobile search trigger
16.06.2015

Óviðunandi ástand Norðfjarðarflugvallar

Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri segir sveitarfélagið reiðubúið að leita fjármögnunar í heimabyggð fyrir allt að 75 millj. kr. gegn samsvarandi fjárframlagi úr ríkissjóði, til þess að koma Norðfjarðarflugvelli í ásættanlegt horf.  Á síðasta fundi bæjarráðs, þann 15. júní, var fjallað um ástand flugvallarins. 

Óviðunandi ástand Norðfjarðarflugvallar
Norðfjarðarflugvöllur þjónar sjúkraflugi á öllu Austurlandi. Brýnt er ráðist verði í úrbætur á braut vallarins eins fljótt og kostur er. (Ljósm. mbl.is)

Bæjaryfirvöld hafa um árabil barist fyrir endurbótum á flugvellinum á Norðfirði, sem þjónar íbúum á Austurlandi fyrst og fremst sem sjúkraflugvöllur.

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað gegnir þýðingarmiklu hlutverki, sem Umdæmissjúkrahús Austurlands og eina sjúkrahúsið frá Akureyri að Selfossi sem veitir sólarhrings bráðaþjónustu og fæðingarþjónustu allan ársins hring. Á heildina litið þjónar fjölbreytt starfsemin allt að 12 þúsund íbúum á 16.000 ferkílómetra landssvæði, auk mikils fjölda innlendra og erlendra ferðamanna.

Á árinu 2014, sem og í upphafi árs 2015, varð töluverð röskun á flugi til og frá vellinum vegna slæms ástands hans. Þörf á sjúkraflugi vegna Fjórðungssjúkrahússins, nemur að jafnaði um 40 ferðum á ári hverju, en hefur farið í yfir 60 ferðir á ári.

Páll Björgvin bendir jafnframt á það veigamikla hlutverk sem fjórðungssjúkrahúsið gegnir fyrir atvinnu- og efnahagslíf svæðisins. Páll segir að með hliðsjón af núverandi og áframhaldandi atvinnuuppbyggingu sem framundan er á Austurlandi, bæði til lands og sjávar, hefur mikilvægi skilvirkrar bráða- og sjúkrahúsþjónustu sjaldan verið meiri en nú.

Bæjarráð Fjarðabyggðar skoraði á fundi sínum í gær á samgöngunefnd Alþingis og innanríkisráðherra, að ráðast í nauðsynlegar úrbætur eins fljótt og kostur er á Norðfjarðarflugvelli og lýsti sig reiðubúið að leita liðsinnis aðila á svæðinu til fjármögnunar á verkefninu gegn mótframlagi úr ríkissjóði.