Fjarðabyggð hefur í sjötta sinn veitt umhverfisviðurkenningar sveitarfélagsins, sem ætlaðar eru til að vekja athygli á fallegu, vel hirtu og snyrtilegu umhverfi íbúa og fyrirtækja.

Að þessu sinni var óskað eftir tilnefningum í tveimur flokkum – snyrtilegasta lóð einkaaðila og snyrtilegasta lóð fyrirtækis. Íbúar voru hvattir til að senda inn tillögur um miðjan ágúst og bárust alls átta tilnefningar.
Sérstök dómnefnd fór yfir tilnefningarnar og lagði tillögur sínar fyrir skipulags- og framkvæmdanefnd, sem samþykkti að veita viðurkenningarnar eftirfarandi aðilum:
- Skólabrekka 2 á Fáskrúðsfirði – Elísa Guðjónsdóttir og Stefán Þór Jónsson, fyrir snyrtilegustu lóð einkaaðila.
- Hótel Breiðdalsvík – fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis.
,,Við áttum ekki von á að fá umhverfisviðurkenningu og það kom okkur skemmtilega á óvart – en það er yndislegt að sjá að vinnan okkar er að skila einhverju. Í Fjarðabygggð er mikill fjöldi einstaklinga og fyrirtækja sem hugsa vel um umhverfi sitt og óskum við þess að þau megi njóta svona viðurkenninga í framtíðini. Gerum Fjarðarbyggð að fyrirmynd." sögðu hjónin Stefán og Elísa.
Friðrik Árnason, eigandi Hótels Breiðdalsvíkur, sagði:
„Við trúum því að umhyggja fyrir umhverfinu byrji heima – með snyrtilegu og vel hirtu umhverfi. Þessi viðurkenning er staðfesting á að það skiptir máli að hafa hlýlegt og fallegt í kringum sig.“

Þuríður Lilly Sigurðardóttir, formaður skipulags- og framkvæmdanefndar, segir viðurkenningarnar meðal helstu hvata til bætts umhverfis í bæjarfélaginu:
„Umhverfisviðurkenningar Fjarðabyggðar eru mikilvægur þáttur í að efla vitund um snyrtilegt og vel skipulagt umhverfi. Með þessum viðurkenningum sýnum við að umhverfi, snyrtimennska og ásýnd skipta máli. Með sameiginlegu átaki allra getum við gert bæina okkar enn fallegri og vistlegri.“
Fjarðabyggð óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju og þakkar öllum sem sendu inn tilnefningar. Við hvetjum íbúa og fyrirtæki til að halda áfram að fegra nærumhverfið—saman gerum við fallegt enn fallegra. Sjáumst að ári með ferskar tillögur og enn grænni fingur!