Fjarðabyggð

Saga Fjarðabyggðar
Á því svæði sem nú myndar Fjarðabyggð voru níu sveitarfélög árið 1987. Fyrr á öldum voru þau aðeins fimm. Þegar þéttbýli fór að myndast við ströndina, um og upp úr aldamótunum 1900, jókst útgerð til muna. Með tilkomu vélbáta skömmu síðar urðu til sérstök sveitarfélög utan um flest þessara þéttbýlisstaða. Þau voru nánast landlaus og líklega stofnuð að kröfu betri bænda í eldri sveitarfélögunum.
Þannig var, sem dæmi Reyðarfjarðarhreppi hinum forna skipt upp í þrjá hreppa, Helgustaðahrepp, Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp árið 1907. Undir loka 20. aldar snérist þessi þróun hins vegar við, þá lögðu menn allt kapp á að sameina sveitarfélög á svæðinu og reyna þannig að efla þau.
Á Fáskrúðsfirði höfðu Frakkar eina af bækistöðvum sínum vegna fiskveiða sinna um aldir. Umsvif þeirra náðu líklega hámarki um aldamótin 1900.
Sagt er að stundum hafi yfir eitt hundrað skip legið á firðinum í einu. Frakkar reistu ýmis mannvirki á Fáskrúðsfirði sem enn standa svo sem spítala, kapellu og konsúlshús. Franskur grafreitur er rétt austan kauptúnsins.
1. júlí 1940 kom breskur her til Reyðarfjarðar, fáir í fyrstu en fjölgaði ört og er talið að erlendir hermenn hafi flestir orðið 1.200-1.300 í einu, í fyrstu breskir en síðar bandarískir, kanadískir og norskir. Miklar minjar eru frá dvöl hersins, mest rústir, en heillegastar eru leifar af stóru hersjúkrahúsi sem sjá á á svæðinu við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði.
Á síldarárunum milli 1960-1970 var mikill fjöldi aðkomufólks á öllum fjörðum hér eystra, en í þetta skipti brá svo við að meirihluti innrásarliðsins voru ungar konur. Í brælum fylltust svo allir firðir af bátum svo að eðli málsins samkvæmt varð ansi fjörlegt á stundum.
Fjarðabyggð verður til
Núverandi Fjarðabyggð er til orðin eftir langt sameiningarferli sem hófst árið 1988 þegar Helgustaðahreppur var lagður undir Eskifjarðarkaupstað og lauk í júní 2018.
Fyrir árið 1988 voru eftirtalin sveitarfélög á því svæði sem nú er Fjarðabyggð talið að norðan: Mjóafjarðarhreppur, Norðfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Helgustaðahreppur, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur. Árið 1998 varð fyrsta sameining sveitarfélaga á þessu svæði þegar Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur sameinuðust formlega, að undangengnum íbúakosningu. Úr varð að nefna hið nýja sveitarfélag Fjarðabyggð, sem varð formlega til 7. júní 1998. Fjarðabyggð varð þar með stærsta sveitarfélag á Austurlandi og voru íbúar þess um 3.300 talsins.
Árið 2006 var haldið áfram á braut sameiningar en þá sameinuðust Fjarðabyggð, Austurbyggð, Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur undir nafni Fjarðabyggðar. Nokkru áður, árið 2003, höfðu Búðahreppur og Stöðvahreppur sameinast í sveitarfélagið Austurbyggð. Það var svo að lokum í júní 2018 að Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð sameinuðust. Að þeirri sameiningu lokinni er sveitarfélagið eitt það víðfeðmasta á landinu.
Þéttbýliskjarnar Fjarðabyggðar
Þéttbýliskjarnar eru sjö talsins. Nyrst er Mjóifjörður en þar er eitt minnsta þorp á Íslandi. Þá kemur Norðfjörður, fjölmennasti bæjarhluti Fjarðabyggðar, því næst Eskifjörður sem stendur við samnefndan fjörð, sem gengur inn úr norðurströnd Reyðarfjarðar. Síðan koma Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður. Syðsti þéttbýliskjarni Fjarðabyggðar er svo Breiðdalur.
Allir þéttbýliskjarnarnir nema Eskifjörður eiga sér gömul nöfn sem ekki eru lengur notuð að neinu ráði og eftir síðustu sameiningu hefur það orðið að venju að nota nöfn fjarðanna um byggðarkjarnana. En gömlu nöfn eru þessi: Brekkuþorp í Mjóafirði, Nes í Norðfirði, Búðareyri við Reyðarfjörð, Búðir á Fáskrúðsfirði, Kirkjuból á Stöðvarfirði og Þverhamarsþorp á Breiðdalsvík.
Fjarðabyggð - Þú ert á góðum stað!
Kjörorð Fjarðabyggðar er "Þú ert á góðum stað" og er notað sem leiðarljós í allri stefnumótun. Hver bæjarkjarni á einnig sín eigin kjörorð sem eru lýsandi fyrir hvern þeirra.
Kjörorðin eru:
Mjóifjörður - Falinn fjársjóður
Norðfjörður - Þar sem lognið hlær svo dátt
Eskifjörður - Sjór og saga
Reyðarfjörður - Þar sem hjartað slær
Fáskrúðsfjörður - C'est la vie (Það er lífið)
Stöðvarfjörður - Steinaríkið Stöðvarfjörður
Breiðdalur - Brosir við þér