mobile navigation trigger mobile search trigger

DAGFORELDRAR

Í sveitarfélaginu Fjarðabyggð eru ekki starfandi dagforeldrar eins og er, en miðað er að því að daggæsla á leikskóla hefjist við 1 árs aldur barns. 

Dagforeldrar eru sjálfstæðir atvinnurekendur, en ráðgjafi á Fjölskyldusviði Fjarðabyggðar hefur umsjón og eftirlit með starfsemi þeirra ásamt því að sjá um ráðgjöf og upplýsingar til dagforeldra og foreldra þeirra barna sem eru í daggæslu hjá dagforeldrum. 

Til að sækja um daggæslu í heimahúsi hafa foreldrar beint samband við viðkomandi dagforeldri. Mikilvægt er að hafa samband við dagforeldra með góðum fyrirvara og gott getur verið að hafa samband við fleiri en eitt dagforeldri, t.d. ef barnið fer á biðlista.

Daggæsla barna í heimahúsum er veitt samkvæmt reglugerð nr. 907/2005. 

Kostnaður vegna þjónustu dagforeldra

Gjaldskrá dagforeldra er frjáls, en Fjarðabyggð niðurgreiðir daggæslu barna í heimahúsum, þannig að foreldrar greiða sama verð fyrir daggæslu í heimahúsum og á leikskólum Fjarðabyggðar.  Til að njóta niðurgreiðslu verða börn einstæðra foreldra að hafa náð 6 mánaða aldri og börn foreldra í sambúð að hafa náð 1 árs aldri.

Niðurgreiðslur miðast við afmælisdag barns, ekki mánuð. Foreldrar og barn þurfa að eiga lögheimili í Fjarðabyggð. Eigi barn í daggæslu systkini á leikskóla reiknast einnig systkinaafsláttur frá vistunargjaldi þess barns sem styttri vistun hefur.
Hafi foreldrar neitað plássi fyrir barn á leikskóla falla niðurgreiðslur vegna daggæslu í heimahúsi niður.

Gott að vita

Gott er að sækja um með góðum fyrirvara, a.m.k. hálfu ári áður en að áætlaður vistunartími hefjist. Þjónustan er veitt í heimahúsum hjá dagforeldrum sem hafa til þess tilskilin leyfi. Vistunartími er samningsatriði á milli foreldra og dagforeldra, en hámarkstími daggæslu skv. reglugerð eru 9 klst. á dag (7.45-16.45). Allir dagforeldrar sem eru með daggæsluleyfi frá sveitarfélaginu hafa leyfisbréf. Í leyfisbréfinu kemur gildistími leyfis fram, ásamt upplýsingum um fjölda barna sem leyfið gildir fyrir. Leyfilegur barnafjöldi hjá dagforeldri er allt að fjórum börnum fyrsta árið. Að þeim tíma loknum er heimilt að veita leyfi fyrir fimm börnum. 

Þegar dagvistunarsamningur er undirritaður þarf einnig að skrifa undir umsókn um niðurgreiðslu, ellegar greiða foreldrar fullt gjald fyrir daggæsluna. Ekki er hægt að sækja um niðurgreiðslur aftur í tímann.

ÁBENDINGAR

Hægt er að senda inn ábendingar í gegnum ábendingagátt Fjarðabyggðar:

https://www.fjardabyggd.is/abending

Yfirstjórn

Sviðstjóri fjölskyldusviðs