FRAMKVÆMDALEYFI
Framkvæmdaleyfi er leyfi fyrir meiriháttar framkvæmdum sem ekki eru háðar byggingarleyfi svo sem leyfi fyrir gerð gatna, holræsa, vega og brúa annarra en göngubrúa í þéttbýli, jarðgangna, flugbrauta, dreifi- og flutningakerfa rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, hafna, virkjana, efnistöku svæða, sorpförgunar og annarra meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess. Áður en framkvæmdaleyfi er veitt skal liggja fyrir hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Ef framkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum skal umhverfismati lokið áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Nauðsynleg gögn með umsókn eru uppdráttur í þremur eintökum sem sýnir framkvæmd og afstöðu hennar í landi, nánar tiltekið yfirlitsuppdráttur í mælikvarða 1:50.000-1:5.000 þar sem fram koma mörk viðkomandi svæðis, tenging þess við þjóðveg, hæðarlínur og mannvirki sem fyrir eru á svæðinu.
Þar sem það á við skal einnig leggja fram afstöðuuppdrátt í mælikvarða 1:2.000-1:1.000 þar sem fram koma mörk viðkomandi svæðis, hæðarlínur, mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir eftir því sem við getur átt. Auk þess fylgigögn þar sem fram kemur lýsing á framkvæmd og hvernig framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum ásamt öðrum upplýsingum sem eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd telur nauðsynlegar. Framkvæmdaleyfishafi greiðir þann kostnað sem umsókninni og eftirliti með framkvæmdinni fylgir.
Nánari upplýsingar veitir skipulagsfulltrúi á skipulagsfulltrui@fjardabyggd.is eða í síma 470 9000.