Saga Fjarðabyggðar
Á því svæði sem nú myndar Fjarðabyggð voru níu sveitarfélög árið 1987. Fyrr á öldum voru þau aðeins fimm, en þegar þéttbýli fór að myndast við ströndina, með aukinni útgerð um og uppúr aldamótunum 1900 og sérstaklega með tilkomu vélbáta skömmu síðar, urðu til sérstök sveitarfélög utan um þau flest, nánast landlaus, og líklega að kröfu betri bænda í eldri sveitarfélögunum.
Þannig var, sem dæmi Reyðarfjarðarhreppi hinum forna skipt upp í þrjá hreppa, Helgustaðahrepp, Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp árið 1907. Undir loka 20. aldar snérist þessi þróun hins vegar við, þá lögðu menn allt kapp á að sameina sveitarfélög á svæðinu og reyna þannig að efla þau.
Á Fáskrúðsfirði höfðu Frakkar eina af bækistöðvum sínum vegna fiskveiða sinna um aldir. Umsvif þeirra náðu líklega hámarki um aldamótin 1900.
Sagt er að stundum hafi yfir eitt hundrað skip legið á firðinum í einu. Frakkar reistu ýmis mannvirki á Fáskrúðsfirði sem enn standa s.s. spítala, kapellu og konsúlshús. Franskur grafreitur er rétt austan kauptúnsins.
1. júlí 1940 kom breskur her til Reyðarfjarðar, fáir í fyrstu en fjölgaði ört og er talið að erlendir hermenn hafi flestir orðið 1200-1300 í einu, í fyrstu breskir en síðar bandarískir, kanadískir og norskir. Miklar minjar eru frá dvöl hersins, mest rústir, en heillegast eru leifar af stóru hersjúkrahúsi sem sjá á á svæðini við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði
Á síldarárunum milli 1960 og 1970 var mikill fjöldi aðkomufólks á öllum fjörðum hér eystra, en í þetta skipti brá svo við að meirihluti innrásarliðsins voru ungar konur. Í brælum fylltust svo allir firðir af bátum svo að eðli málsins samkvæmt varð ansi fjörlegt á stundum.