SNJÓMOKSTUR OG HÁLKUEYÐING
Vetrarþjónusta er veitt í þéttbýliskjörnum í samræmi við verklagsreglur Þjónustu- og framkvæmdamiðstöðvar Fjarðabyggðar og í samvinnu við Vegagerðina um safnvegi sem lúta reglum um helmingamokstur. Þjónustan miðar að því að halda opnum helstu stofn- og tengibrautum, strætisvagnaleiðum og aðgengi að neyðarþjónustu sem kostur er.
Þau svæði gatna sem eru hálkuvarin eru aðallega erfiðar brekkur og gatnamót og er að jafnaði notast við saltblandaðan sand. Húsagötur eru hreinsaðar ef þær eru þungfærar einkabílum. Þá er snjór almennt hreinsaður frá innkeyrslum. Snjóruðningur eða snjókögglar geta þó orðið eftir við innkeyrslur og þurfa íbúar í þeim tilvikum að sjá sjálfir um þá hreinsun
Snjómokstur fer fram alla virka daga á tímabilinu kl. 05:00 til 16:00, á laugardögum á milli 08:00 til 14:00, en ekki er gert ráð fyrir snjómokstri á sunnudögum. Verkstjóri í Þjónustu- og framkvæmdamiðstöð stjórnar snjómokstri. Vetrarþjónusta er ekki veitt á meðan óveður gengur yfir. Þjónustuflokkar gatna annars vegar og gönguleiða hins vegar eru þrír talsins:
- Fyrsti þjónustuflokkur er auðkenndur með rauðum lit og lýtur að forgangi stofnbrauta og stofnstíga, s.s. göngu- og hjólastíga að skólum og leikskólum.
- Annar þjónustuflokkur er auðkenndur með gulum lit og lýtur að tengibrautum og safngötum með minni umferð og göngu- og hjólreiðastíga sem liggja um hverfi.
- Þriðji þjónustuflokkur er með grænum lit og snýr að fáfarnari safngötum, húsagötum og stígum.
Nánari upplýsingar um vetrarþjónustu í Fjarðabyggð eru veittar í síma 470 9000.