Söfn og sýningar
Söfnin í Fjarðabyggð eru jafn ólík og þau eru mörg. Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði geymir gagnmerkar heimildir um atvinnusögu landsmanna, í útgerð, verslun, smáiðnaði og lækningum. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði er merk heimild um hernám landsins og síðari heimsstyrjöldina, með hersetu Reyðarfjarðar í forgrunni. Safnið er það eina hér á landi sem gerir atburðum stríðsáranna skil, eins og þeir komu almenningi fyrir sjónir á þessum viðsjárverðu tímum. Safnið Fransmenn á Íslandi segir sögu franskra skútusjómanna á Fáskrúðsfirði. Raunsannri mynd er brugðið upp af lífi þeirra og kjörum ásamt merku framlagi Frakka hér á landi í m.a. þróun húsagerðar og heilbrigðisþjónustu.
Í Safnahúsinu á Norðfirði, eru þrjú og ekki síður áhugaverð söfn til húsa. Náttúrugripasafnið á Norðfirði lýsir náttúru Austurlands með aðgengilegum og lifandi hætti. Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar snýr að hand- og iðnverki fyrri tíðar. Á jarðhæð Safnahússins er svo Myndlistarsafn Norðfirðingsins Tryggva Ólafssonar. Safnið er stærsti eigandi að verkum þessa óvenjulega listamanns og er ný sýning sett upp á verkum hans á hverju ári. Söfnin eru opin alla daga vikunnar yfir sumartímann. Á öðrum tímum ársins eru þau opin eftir samkomulagi. Tekið er við bókunum á sofn@fjardabyggd.is eða í síma 470-9000.