mobile navigation trigger mobile search trigger

BÆJARHÁTÍÐIR

Sumarið er tíminn fyrir glaða daga og bjartar nætur. Í Fjarðabyggð má velja úr fjölda viðburða á sumrin. Fjölbreytnin er í fyrirrúmi og spannar sumarið allt frá fjölskylduvænum útihátíðum og hoppukastölum að útivist og fjölþjóðlegu þungarokki. Og þar sem íslenska sumarið er heldur stutt, hefst viðburðadagatalið snemma ársins og lýkur seint.

Margar af hátíðum sumarins eiga rætur að rekja til bæjarkjarna sveitarfélagsins og eru mótaðar af sögu viðkomandi staða, eins og hernámsdagurinn á Reyðarfirði og Franskir dagar á Fáskrúðsfirði. Aðrar eru nýrri af nálinni, eins og Eistnaflug, en hafa engu að síður skapað sér sértakan sess meðal bæjarhátíða í Fjarðabyggð.
Þá eru ótaldar hátíðirnar sem fylgja öðrum árstímum en sumrinu, Páskafjör og Dagar myrkurs.

PÁSKAFJÖR

oddskarð

Útivistarhátíð um alla Fjarðabyggð, með glæsilegri dagskrá í Skíðamiðstöðinni í Oddsskarði, páskaeggjaleit og nærandi göngu- og skíðaferðum, svo að fátt eitt sé nefnt. 

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn skemmtun

Haldinn hátíðlegur fyrstu helgina í júní á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Norðfirði. Sjómannadagurinn er stærsta sumarhátíð Eskfirðinga og standa hátíðarhöldin jafnan frá fimmtudegi til sunnudags.

17. júní

17. júní í Fjarðabyggð

Skrúðganga og frábær skemmtidagskrá. Bæjarkjarnar skiptast á við að halda upp á þjóðhátíðardaginn og því er enginn 17. júní eins. Frítt er í strætó á milli bæjarkjarna að hátíðarsvæði og frá.

Hernámsdagurinn

Fjarðadætur á Hernámsdeginum

Hernáms Reyðarfjarðar árið 1940 er minnst síðasta sunnudag júnímánaðar. Hernámsganga, hernámshlaup og dagskrá við Íslenska stríðsárasafnið er á meðal árvissra viðburða. 

Eistnaflug

Eistnaflug tónlistarhátíð

Rokkhátíðin Eistnaflug er haldin aðra helgina í júlí á Norðfirði. Hart rokk alla helgina alveg frá miðvikudegi. Hátíðin hefur áunnið sér sess sem einn helsti tónlistarviðburður ársins.

Franskir dagar

Á stultum á Frönskum dögum

Bæjarhátíðin Franskir Dagar er haldin á Fáskrúðsfirði fjórðu helgina í júlí, þ.e. helgina fyrir verslunarmannahelgi. Menningarveisla fyrir alla fjölskylduna með frönsku ívafi.

Neistaflug

Neistaflug Neskaupstað - Flugeldasýning

Ekta fjölskylduhátíð á Norðfirði  um verslunarmannahelgina, fyrstu helgina í ágúst. Samhliða er einnig hlaupið Barðsneshlaup, 27 km fjöru- og fjallahlaup á milli fjarða. Bara gaman.

Dagar myrkurs

Bílabíó á Mjóeyri á Dögum myrkurs

Skammdegishátíð um allt Austurland í  nóvember. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá sem tengist ljósi og myrkri og spannar allt frá draugagangi að rómantík og rauðum hjörtum.

Á fætur í Fjarðabyggð

Göngu- og gleðivikan "Á fætur í Fjarðabyggð" er haldin síðustu vikuna í júní. Þessi athyglisverða gönguhátíð býður upp á mikinn fjölda af skipulögðum viðburðum fyrir alla fjölskylduna um alla Fjarðabyggð og tvinnar saman með einstökum hætti útivist og frábæra skemmtun.