STJÓRNSKIPUN OG SKIPURIT
STJÓRNKERFIÐ
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fer með æðstu stjórn sveitarfélagsins. Hún er kosin af íbúum Fjarðabyggðar í almennum kosningum til sveitarstjórna og er lögum samkvæmt fjölskipað stjórnvald. Bindandi ákvarðanir fyrir sveitarfélagið verða því einungis teknar á bæjarstjórnarfundum. Bæjarstjórn er þó heimilt að framselja vald sitt til nefnda og ráða innan sveitarfélagsins, þó ekki ákvarðanatökuvald sem varðar verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Forseti bæjarstjórnar er oddviti hennar. Kosið er til embættisins á fyrsta fundi að kosningum loknum og stýrir hann eftir það fundum bæjarstjórnar.
Bæjarráð er skipað þremur bæjarfulltrúum. Það fer ásamt bæjarstjóra með daglegan rekstur sveitarfélagsins á milli bæjarstjórnarfunda. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og yfirmaður starfsliðs stjórnsýslunnar. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga. Ráðherra sveitarstjórnarmála skal gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga, verkefni þeirra og fjárhag.
Nánar um stjórnskipun Fjarðabyggðar má finna hér.