SVIÐ OG STOFNANIR
Stjórnsýsla Fjarðabyggðar er bundin af sveitarstjórnarlögum og þeim samþykktum sem sveitarfélagið hefur gert um starfsemi þess. Einnig er hún bundin af almennum lögum um stjórnsýslu eins og stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um persónuvernd. Þá lýtur hún þeim sérlögum og reglugerðum sem gilda fyrir einstök málefnasvið og má í því sambandi nefna leikskólalög, grunnskólalög og sérlög sem snerta málefni aldraðra og fatlaðra.
Stjórnsýslu Fjarðabyggðar er skipt upp í sex málefnasvið. Þau framfylgja þeirri stefnu sem bæjarstjórn markar hverju sviði varðandi þjónustu við íbúa og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Samhliða stjórnsýslunni eru starfandi sjö fastanefndir kosnar af bæjarstjórn sem útfæra stefnu bæjarstjórnar á hverju málefnasviði í samstarfi við starfsmenn stjórnsýslu.