mobile navigation trigger mobile search trigger

Eldra fólk

Sveitarfélagið Fjarðabyggð leggur áherslu á að eldra fólk geti búið sjálfstætt sem lengst. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. 

Í boði er félagsstarf og fjölbreyttur stuðningur í gegnum heimaþjónustu. Sveitarfélagið Fjarðabyggð er nú þátttakandi í þróunarverkefni sem gengur út á samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Þróunarverkefnið er hluti af aðgerðaráætluninni Gott að eldast þar sem stjórnvöld taka utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Markmið verkefnisins er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér um annars vegar og hins vegar sveitarfélagið.

Nánar má lesa um þróunarverkefnið inni á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands: https://www.stjornarradid.is/verkefni/lif-og-heilsa/oldrunarmal/gott-ad-eldast/

Til að eiga rétt á þjónustu þurfa umsækjendur að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Eiga lögheimili í Fjarðabyggð.
  • Vera metin í þörf fyrir stuðning samkvæmt reglum Fjarðabyggðar um stuðningsþjónustu.

Fyrsta skref í að sækja um þjónustu er að bóka samtal hjá ráðgjafa fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar. Sótt er um alla þjónustu í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar á fjardabyggd.is

Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður heimaþjónustu í Fjarðabyggð.

Ráðgjöf fyrir eldra fólk og aðstandendur þeirra:

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Ráðgjöf fyrir eldra fólk felur í sér leiðsögn fyrir einstaklinga og aðstandendur þeirra. Markmiðið er að aðstoða fólk að þekkja þjónustu sem stendur til boða og styðja fólk við að lifa sjálfstæðu og virku lífi.

Heimaþjónusta:

Í heimaþjónustu felst heimastuðningur og heimsending matar. Markmið þjónustunnar er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Heimaþjónusta er stuðningur við þá sem ekki geta einir og óstuddir séð um heimilishald.

Heimaþjónusta er aðstoð við heimilishald sem nánar er útlistað í reglum Fjarðabyggðar um stuðningsþjónustu.

Heimsending matar er fyrir þá sem geta ekki annast matseld sjálfir. Maturinn er greiddur af þeim sem hans njóta en sveitarfélagið sér um dreifingu þeim að kostnaðarlausu.

Dagvist fyrir eldra fólk:

Dagvist eldra fólks er stuðningsúrræði fyrir eldra fólk í Fjarðabyggð sem búa í heimahúsum og þurfa stuðning í þeim tilgangi að viðhalda færni og getu til að búa sem lengst í heimahúsi. Lögð er áhersla á að styðja notendur til sjálfstæðis.

Dagvist eldra fólks er staðsett í Breiðdalsvík og er opin alla virka daga frá kl. 9:00 - 17:00.

Þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk í Breiðablik, Neskaupstað:

Þjónustuíbúðir eru íbúðir fyrir eldra fólk þar sem gætt hefur verið að aðgengis- og öryggismálum. Þar er m.a. boðið upp á innlit frá starfsmanni, þrif á sameign, almenn heimaþjónusta, heimahjúkrun og öryggisvöktun í formi öryggishnappa.

Markmið með rekstri þjónustuíbúða er að stuðla að sjálfstæði íbúa sem þar búa s.s. varðandi heimilishald og stuðla að sem mestri sjálfsbjargargetur hvers og eins.

Þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk í Fjarðabyggð eru að Mýrargötu 18 í Neskaupstað (Breiðablik). Þar eru níu hjónaíbúðir og sautján einstaklingsíbúðir. Í húsinu er setustofa og þvottaaðstaða. Íbúum gefst kostur á að kaupa hádegisverð alla virka daga.

Félagsstarf:

Félög eldra fólks í Fjarðabyggð halda utan um félagsstarf fyrir eldra fólk í hverjum kjarna sveitarfélagsins. Stefna sveitarfélagsins er að byggja á og hlúa að frumkvæði eldra fólks varðandi skipulagningu félagsstarfs og styður félögin til þess.

Janus:

Fjölþætt heilsuefling er samstarfsverkefni á vegum Fjarðabyggðar og Janusar heilsueflingar. Verkefnið er heilsutengt forvarnarverkefni og er fyrir einstaklinga 65 ára eða eldri sem eru með lögheimili í Fjarðabyggð.

Lagt er upp með markvissa þol- og styrktarþjálfun, reglulegar heilsufarsmælingar á 6 mánaða fresti, fræðslu og ráðgjöf um holla næringu eða aðra heilsueflandi þætti. Markmið með þátttöku í verkefninu er að bæta afkastagetu, hreyfifærni og heilsulæsi þátttakenda.

Nánar má lesa um verkefnið hér: https://www.janusheilsuefling.is/