mobile navigation trigger mobile search trigger

AÐALSKIPULAG 2020 - 2040

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélagið og skal taka til alls lands viðkomandi sveitarfélags. Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu sína um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir deiliskipulagsgerð einstakra svæða í sveitarfélaginu.

Skipulagsstofnun staðfesti 28. apríl 2022 nýtt aðalskipulag Fjarðabyggðar 2020-2040 og skrá yfir vegi í náttúru Íslands, sem samþykkt voru í bæjarstjórn 16. desember 2021. Við gildistöku aðal¬skipulagsins falla úr gildi aðalskipulag Fjarðabyggðar 2007-2027 og aðalskipulag Breiðdalshrepps 2018-2030 ásamt síðari breytingum.

Skipulagslög og skipulagsreglugerð kveða á um megindrætti í ferliendurskoðunar aðalskipulags. Það hófst með kynningu lýsingar í mars 2020 og bárust þá margvíslegar ábendingar sem hafa verið hafðar til hliðsjónar við endurskoðunina. Tillaga var kynnt á vinnslustigi í mars 2021 og bárust ýmis viðbrögð sem skoðuð voru við endanlega mótun tillögunnar.

Hægt er að nálgast slóð á öll gögn aðalskipulagsins á þessari slóð hér: https://fjardabyggd.alta.is/ 

Vefsjá með gögnum má finna á þessari slóð hér: https://geo.alta.is/fjb/ask/ 

Fullgerð tillaga var samþykkt í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þann 25. maí 2021 og í bæjarstjórn þann 3. júní. Tillagan var þá send Skipulagsstofnun til athugunar og síðan lagfærð í samræmi við ábendingar stofnunarinnar. Tillagan var síðan auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gefinn frestur til 8. nóvember til að koma með skriflegar athugasemdir.

Athugasemdir bárust frá landeigendum í Fagradal í Breiðdal, HAUST, Landsneti, Minjastofnun, Múlaþingi, NAUST, Náttúrufræðistofnun, Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar, Stefáni AsparStefánssyni, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni. Farið var yfir allar athugasemdir og breytingar gerðar á tillögunni eftir því sem tilefni var til en breytingarnar fela ekki í sér verulega stefnubreytingu heldur minni háttar leiðréttingar og endurbætur á umfjöllun í tillögunni. Svör við athugasemdum voru tekin fyrir í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þann 24. nóvember og samþykkt að vísa skipulaginu til bæjarstjórnar með breytingum í samræmi við svör. Svörin voru tekin fyrir í bæjarstjórn þann 2. desember og tillaga með áorðnum breytingum þann 16. desember 2021 þar sem tillagan var samþykkt í samræmi við 32. gr. Skipulagslaga og henni vísað til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. Hið endurskoðaða aðalskipulag tók síðan gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.