mobile navigation trigger mobile search trigger
12.02.2025

Fundur með rektor Háskólans á Akureyri og sveitarstjóra Múlaþings

Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, heimsótti nýlega Austurland og átti fund með Jónu Árnýju Þórðardóttur bæjarstjóra Fjarðabyggðar og Dagmari Ýr Stefánsdóttur, sveitastjóra Múlaþings. Á fundinum var umræða um aðgengi að háskólanámi á Austurlandi, samstarf stofnanna og þjónustu við háskólanema á svæðinu. 

Fundur með rektor Háskólans á Akureyri og sveitarstjóra Múlaþings
Dagmar Ýr, sveitarstjóri Múlaþings, Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri og Jóna Árný, bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Í dag stunda fjölmargir háskólanám á Ausutrlandi, en þetta námssamfélag er því miður lítið  sýnilegt í okkar samfélagi og tækifæri eru til að draga það enn betur og skýrar fram. Austurbrú sinnir þjónustu við fjarnema og hefur verið  mikilvægur hlekkur í möguleikum fólks til að sinna námi en jafnframt búa hér á svæðinu. Það er töluverður hópur sem stundar nám í HA sem búsettur er á Austurlandi og mikilvægt að framboð, skipulag náms, námslotur o.fl. mæti þeim þörfum sem okkar íbúar hafa. Einnig var rætt það nám sem þegar er í gangi í samstarfi HA og HR í tölvunarfræði sem og aðra þróun á svæðinu og má þar benda t.d. á samstarf HÍ og Hallormsstaðaskóla o.fl. Einnig ræddum við rannsóknir og mögleikana til að auka áherslu á samstarf námssamfélagsins á háskólastigi við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu því upp úr slíku samstarfi spretta oft ný og áhugaverð verkefni. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu hafa verið góðir og öflugir samstarfsaðilar í ýmsum verkefnum sem unnin eru af nemendum á háskólastigi og er það mikilvægur hlekkur í að byggja upp öflugt námssamfélag á Austurlandi.

Áslaug tók við stöðu rektors 1. júlí, 2024 af Eyjólfi Guðmundssyni sem gegnt hafði stöðu rektors frá 1. júlí 2014. 

Áslaug starfaði áður sem prófessor við Bates Collage, Lewiston, Maine í Bandaríkjunum frá árinu 2001. Áslaug hefur gegnt þar ýmsum stjórnunarstörfum, s.s. starfi aðstoðarrektors og starfi deildarforseta. Áslaug er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Washington University in St. Louis í Bandaríkjunum.