mobile navigation trigger mobile search trigger
29.10.2024

Íbúafundur um ofanflóðamál

Þriðjudaginn 22. október síðastliðinn var haldinn íbúafundur vegna ofanflóðamála í Neskaupstað. Fundurinn var framhald af þeirri vinnu sem verið hefur frá síðasta íbúafundi og vinnustofunni ,,Stillum saman strengi" sem fram fór 2. október, 2023. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar fór stuttlega yfir það sem fram fór á vinnustofunni. Þar komu saman allir helstu viðbragðsaðilar, Almannavarnanefnd Austurlands, Veðurstofa Íslands, og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra ásamt fulltrúum sveitarfélaganna, björgunarsveita, Vegagerðarinnar, Heilbrigðisstofnun Austurlands og fleiri aðilium.

Íbúafundur um ofanflóðamál

Vinnustofan fór þannig fram að hópunum var skipt upp og hver hópur vann útfrá ákveðnum málefnum og spurningum sem hann fékk. Í kjölfarið á vinnustofunni var opinn fundur fyrir íbúa þar sem komu innlegg frá sérfræðingum í ofanflóðavörnum og viðbragðsaðilum. Einnig var greint frá helstu skilaboðum sem komu frá vinnustofunum. 

Á fundinum sem haldinn var 22. október síðastliðinn var farið yfir hvernig stöðugt hefur verið haldið áfram að bæta mælingar og viðbragð í kjölfarið á snjóflóðunum í mars 2023. 

Jón Björn Hákonarson fór yfir rýmingarkort og hvaða uppfærslur hafa verið gerðar á þeim. Meðal annars er varðar hvar hættulína er dreginn. Unnið er að því að koma rýmingarkorti á stafrænt form og verður þá hægt að uppfæra rýmigarkort í rauntíma og íbúar og aðrir geta nálgast þá það. Kortið mun svo verða aðgengilegt inná kortasjá Fjarðabyggðar. Unnið hefur verið að því að skýra þau, bæði með betri auðkenningu rýmingarreita, en ekki síst með að tryggja að línur, sem skilja milli reita, skeri ekki hús. Eins er horft betur eftir því hvort rýmingar hafi áhrif á aðkomu að húsum. Neskaupstaður er fyrsta byggðarlagið hérlendis þar sem rýmingarkortin eru endurskoðuð á þennan hátt.

Um áramótin tók til starfa sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofunnar með starfsstöð í Neskaupstað. Að undanförnu hefur mælitækjum verið fjölgað og komnir eru snjódýptarmælar í Nes- og Bakkagiljum.

Unnið hefur verið með skíðasvæðunum í Stafdal og Oddsskarð að því að yfirfara verklag þeirra. Það er nú komið í fastari skorður og bætt hefur verið í búnað og þjálfun starfsfólks. Stefnt er að gerð hættumats fyrir svæðið í Stafdal á næsta ári en það er til fyrir Oddsskarð.

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, fór yfir öryggisráðstafanir vegna ofanflóðahættu yfir vegum. Það er byggt á miklu samstarfi við Vegagerðina og Veðurstofuna. Veðurstofan fer með ofanflóðaeftirlit og er með vöktun á ákveðnum vegaköflum undir hættulegum hlíðum og metur hættuna hverju sinni. 

Þá mun Veðurstofan vinna sérstaka snjóflóðaspá fyrir Grænafell en þaðan hafa reglulega fallið snjóflóð á veginn yfir Fagradal. Vegagerðin býður fólki að skrá sig á lista þannig það fái sent SMS, fyrst þegar óvissuástand skapast og svo áfram eftir því sem staðan breytist.

Fleiri myndir:
Íbúafundur um ofanflóðamál
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri
Íbúafundur um ofanflóðamál
Skýrari reitaskipting
Íbúafundur um ofanflóðamál
Íbúafundur um ofanflóðamál
Harpa Grímsdóttir, frá Veðurstofu Íslands
Íbúafundur um ofanflóðamál
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn