Þriðjudaginn 8. apríl stóð Menningarstofa Fjarðabyggðar ásamt Sláturhúsinu og leikskólunum Tjarnarskóg á Egilsstöðum og Hádegishöfða í Fellabæ, fyrir leikskólatónleikunum Leikur að orðum í Sláturhúsinu.
Þriðjudaginn 8. apríl stóð Menningarstofa Fjarðabyggðar ásamt Sláturhúsinu og leikskólunum Tjarnarskóg á Egilsstöðum og Hádegishöfða í Fellabæ, fyrir leikskólatónleikunum Leikur að orðum í Sláturhúsinu.
Á tónleikunum komu fram yfir 50 leikskólabörn elsta árgangs leikskólanna og sungu lög Braga Valdimars Skúlasonar. Samhliða fara fram tónleikar leikskólabarna í sveitarfélögum um allt land en tónleikar leikskólabarna í Fjarðabyggð fara fram í Eskifjarðarkirkju 12. maí.
Verkefnið snýst um að efla tónlistarþátttöku elstu barna leikskólanna, kynna tónlistararfinn og tónlistarnám fyrir þeim og gera þeim kleift að efla eigin málskilning og orðaforða í gegnum skapandi leik og starf. Verkefnið byggir á áralangri samvinnu Tónskóla Sigursveins og leikskóla í Reykjavík þar sem elstu nemendur leikskóla æfa og vinna með ákveðin lög og flytja þau síðan á tónleikum með nemendum tónlistarskólans. Í fyrra voru gerðar tilraunir með að útvíkka verkefnið og í ár fékkst styrkur úr Barnamenningarsjóði sem fært hefur börnum um allt land tónlistargleðina.
Kynnir og kórstjóri á tónleikunum var Karitas Harpa Davíðsdóttir. Útsetningar voru í höndum Haraldar Vignis Sveinbjörnssonar.