Menningarhelgi í Kirkju- og menningarmiðstöðinni
Það verður mikið um að vera í Kirkju- og menningarmiðstöðinni nú um helgina. Hinn landsþekkti karlkór Voces Masculorum heimsækir Fjarðabyggð og heldur tónleika á laugardaginn kl.17:00. Kórinn, sem starfar á Reykjavíkursvæðinu, er skipaður skipaður tónlistarmenntuðum söngmönnum, mest einsöngvurum, stórtenórum, smátenórum, jarðskjálftabössum en einnig organistum kórstjórum og tónskáldum. Það er auðvitað til marks um gæði þessa kórs, að þeir kjósa aðeins að vinna með stjórnanda héðan úr Fjarðabyggð. Það er Kári Þormar sem heldur um stjórnartauminn og leikur undir.
Dagskráin er mjög fjölbreytt en þeir flytja lög eftir m.a. Sigfús Halldórsson, Árna Thorsteinsson, Egil Gunnarsson, Mozart, Wagner, Bítlana, Mel Brooks og Britney Spears.
Tónleikar þessir voru áður fluttir í Salnum í Kópavogi fyrir troðfullu húsi við hreint út sagt frábærar viðtökur .Því hafa þeir félagar í kórnum fullyrt að þessir tónleikar séu það flottir að þeim hljóti að fylgja ríkisábyrgð og trygging fyrir því að þetta verði flottustu og skemmtilegustu tónleikar ársins.
Á sunnudaginn kl.14:00 verður Hátíðarmessa í Eskifjarðarkirkju og setning ljósmyndasýningar Vilbergs Guðnasonar. Kór Eskifjarðarkirkju syngur, trompetleikari er Jóhann Ingvi Stefánsson.
Karlakórinn Voces Masculorum tekur einnig þátt í athöfninni.
Sýningin skiptist í tvennt. Annars vegar eru mikill fjöldi margvíslegra mynda fengnar að láni hjá fjölmörgum sem eiga verk eftir Vilberg en einnig eru myndir sem unnar eru beint af filmum frá Vilbergi og eru sérstaklega prentaðar og uppsettar í tilefni sýningarinnar. Þær myndir verða til sölu að sýningu lokinni.
Vilberg Guðnason, atvinnuljósmyndari, vann að ljósmyndun frá því um 1940 og til ársins 2000. Hann er Eskfirðingur og vann að iðn sinni í heimabænum allan sinn tíma, ef frá er talinn tíminn sem hann dvaldist í Reykjavík við nám. Þessi sýning er mjög áhugaverð því hér fléttast saman menningarverðmæti, sagan, heimildir og nánast horfin myndtækni s.s. málun og redúsering.
Sýningin er í samstarfi við ljósmyndasafn Eskifjarðar
Ljósmyndasýningin stendur frá og með 4. október til 17 október og er opin virka daga frá kl.17-19 og kl. 11 – 15 á laugardögum