mobile navigation trigger mobile search trigger
19.03.2021

Mygla í norðurhluta Nesskóla

Við skoðun á sýnum sem tekin voru í norðurhluta Nesskóla kom í ljós mygla í álmunni, en hún hýsir elsta stig skólans (8. – 10. Bekk). Þegar niðurstaðan lá fyrir núna í morgun var strax brugðist við og voru allir nemendur á elsta stigi sendir heim fyrir hádegi í dag.

Mygla í norðurhluta Nesskóla

Þegar þessi niðurstaða lá fyrir nú í morgun hófu starfsmenn framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar strax vinnu við að meta aðstæður og hvaða aðgerða væri þörf við viðgerðir á húsinu í samráði við sérfræðinga. Sú vinna hefur gengið vel og munu verktakar hefja vinnu á mánudag við lagfæringar og úrbætur á álmunni. Ekki lýtur út fyrir að sú framkvæmd sé stór eða mikil, en þó liggur fyrir að álman verður ekki notuð til kennslu alveg á næstunni.

Starfsmenn Nesskóla og fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar vinna nú að því að skipuleggja starf elsta stigs Nesskóla með tilliti til þeirra aðstæðna sem upp eru komnar. Gert er ráð fyrir því að á mánudag verði skipulagsdagur kennara á unglingastigi þar sem starfið framundan verður skipulagt, nemendur á elsta stigi Nesskóla mæta því ekki í skólann á mánudag. Á þriðjudag er síðan stefnt á að hægt verði að hefja kennslu að nýju að einhverju leyti, en ljóst er að þetta mun hafa einhver áhrif á kennslu á unglingastigi á næstunni.

Foreldrar í Nesskóla eru beðnir um að fylgjast með frekari tilkynningum frá skólanum í Mentor á mánudag varðandi útfærslu skólastarfsins.

Það er ítrekað að ekki er ástæða til að ætla að mygla sé á fleiri stöðum í húsnæði Nesskóla og því mun starf annara stiga skólans ekki verða fyrir áhrifum af þessum völdum.