mobile navigation trigger mobile search trigger
11.04.2024

Sigldu um öll heimsins höf á Tæknidegi fjölskyldunnar

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 13. apríl. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, nýsköpun og þróun á Austurlandi og er dagskráin sniðin að öllum aldurshópum. Þetta er í níunda sinn sem Tæknidagurinn er haldinn og nú að vori.

Sigldu um öll heimsins höf á Tæknidegi fjölskyldunnar

Það verður margt um að vera á Tæknideginum í ár eins og venjulega og dagskráin afar fjölbreytt. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sýna starfsemi sína og lögð er áhersla á að gestir sjái hvernig tækni- og vísindaþekking nýtist fyrirtækjum í alls konar starfsgreinum.

Viðburðir verða í þremur byggingum: Í íþróttahúsinu í Neskaupstað og í verknáms- og bóknámshúsum VA. Sérstaka athygli að þessu sinni vekur Vísindasmiðja Háskóla Íslands en hún var síðast með okkur árið 2019 og erum við því að endurnýja kynnin. Vísindasmiðjan mun bjóða upp á ýmsar óvæntar uppgötvanir og skemmtilegar tilraunir fyrir alla fjölskylduna s.s. teiknirólu, syngjandi skjál, þrautir, dulkóðun, hljóðtilraunir, teikniþjarkar og fjölmargt fleira.

Og það verður margt, margt fleira í boði á Tæknideginum: Gestir geta siglt um öll heimsins höf í siglingahermi sem verið er að setja upp innan veggja skólans, hið klassíska atriði þar sem bóndinn og líffræðingurinn Doddi kryfur dýr verður að sjálfsögðu til staðar, hægt verður að fara inn í sýndarveruleika og aukinn veruleika með Gunnarsstofnun, prófa ýmsar tilraunir með rafmagn, skoða smáhýsi sem er í smíðum, gera litríkar tilraunir, að kynnast frumkvöðlum framtíðarinnar í nýsköpunarkeppninni, feta í fótspor keppenda í Gettu betur, prófa bragðlaukana, móta landslag í sandkassa, kynna sér ýmsar iðngreinar og möguleika sem nám í þeim færir og fá „heilsufarstékk“ á staðnum! Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar verða á svæðinu og öll ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fjarðabyggð mun taka þátt í Tæknidegi fjölskyldunnar eins og undanfarin ár. Að þessu sinni mun Veitur Fjarðabyggðar kynna starfsemi sína ásamt slökkviliði Fjarðabyggðar og byggingafulltrúa. Bæjarfulltrúar munu einnig vera á staðnum. 

Einnig mun 9. bekkur Nesskóla verða með kaffisölu í matsalnum þar sem tilvalið er að setjast niður, fá sér kaffi og með því og velta fyrir sér hvert sé hægt að fara næst!

Það er Verkmenntaskóli Austurlands sem stendur að Tæknideginum og nýtur til þess stuðnings frá SÚN, Síldarvinnslunni, Landsvirkjun, Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fjarðabyggð og Sparisjóði Austurlands. Dagskráin hefst kl. 12 og lýkur kl. 16. Við hvetjum ykkur til að mæta snemma til þess að geta séð sem flest atriði!

Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veitir Birgir Jónsson hjá Verkmenntaskóla Austurlands í síma 8687556 // birgir@va.is

Fleiri myndir:
Sigldu um öll heimsins höf á Tæknidegi fjölskyldunnar
Sigldu um öll heimsins höf á Tæknidegi fjölskyldunnar