mobile navigation trigger mobile search trigger
01.11.2024

Víðtæk samþætting endurhæfingar formgerð með tímamótasamningi

Samningur sem kveður á um víðtækt samstarf á sviði endurhæfingar og samhæfingu þjónustunnar þvert á kerfi var undirritaður í dag. Að samningnum koma 46 aðilar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu, sem skuldbinda sig til að eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem á þurfa að halda. Samningurinn tekur gildi 1. september 2025 og er mikilvægur liður í innleiðingu viðamikilla breytinga á örorkulífeyriskerfinu samkvæmt lögum sem öðlast gildi á sama tíma.

Víðtæk samþætting endurhæfingar formgerð með tímamótasamningi
Frá undirritun samstarfssamnings á sviði endurhæfingar 31. október 2024

Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusvið undirritaði samninginn fyrir hönd Fjarðabygggð. 

Markmið nýrra laga er að bæta þjónustu og tryggja að hún sé samþætt og heildstæð gagnvart notendum. Enn fremur er örorkulífeyriskerfið einfaldað, dregið er úr tekjutengingum, fjárhæðir hækkaðar og bætt við greiðsluflokki sem tryggir enn fremur framfærslu sjúklinga. Nýju kerfi er ætlað að auka líkur á endurkomu fólks á vinnumarkað, fyrirbyggja ótímabæra örorku, styrkja hvata til atvinnuþátttöku og jafnframt að bæta þjónustu og stuðning við einstaklinga sem ekki eru á vinnumarkaði vegna heilsubrests eða fötlunar. Hlutaðeigandi einstaklingar fái einstaklingsmiðaða þjónustu innan viðeigandi kerfis sem byggir á virkri þátttöku þeirra sjálfra og samvinnu samningsaðila í þjónustuferlinu. 

Samningurinn og helstu markmið hans

Aðilar að samningnum eru Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, sveitarfélögin og veitendur heilsugæsluþjónustu og félagsþjónustu um allt land. Saman mynda þessir aðilar kerfisbundna heild um veitingu endurhæfingarþjónustu á landsvísu. Helstu markmið samningsins eru:

  • Að ná fram heildstæðri nálgun við endurhæfingu einstaklinga og samfellu í allri þjónustu.
  • Að undirbúningur að endurkomu á vinnumarkað hefjist eins fljótt og hægt er þegar heilsubrests verður vart, með snemmtækri íhlutun.
  • Að einstaklingum sé fylgt eftir milli þjónustukerfa þurfi þeir þjónustu fleiri en eins kerfis, ljóst sé hvernig ábyrgðin færist á milli þeirra og að hlutverk hvers þjónustuveitanda sé skýrt.
  • Að miðlun upplýsinga verði stafræn og fari fram í gegnum örugga þjónustugátt milli þeirra sem veita þjónustuna til aukins hagræðis fyrir notendur þjónustunnar.

„Á þessu kjörtímabili höfum við náð fram mikilvægum og löngu tímabærum breytingum á örorkulífeyriskerfinu. Í nýju kerfi er áhersla lögð á samfellu í þjónustu og samvinnu þjónustuaðila til að hindra að fólk falli á milli kerfa og um það snýst einmitt samningurinn sem við undirritum hér í dag. Þetta er því mikið fagnaðarefni og tímamót í íslenskri velferðarþjónustu,” segir Bjarni Benediktsson félags og vinnumarkaðsráðherra.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Það er margt í þessum samningi sem horfir til framfara. Fyrir einstaklingana skiptir samþætt þjónusta með skýrri ábyrgð þjónustuveitenda miklu máli. Sama máli gegnir um greiða miðlun upplýsinga milli kerfa. Í heilsugæslunni mun þetta draga úr þörf fyrir skriffinnsku og auka við tímann sem gefst til að sinna skjólstæðingunum beint. Samhæfingarteymin sem stofnuð verða munu gegna lykilhlutverki og stuðla að sameiginlegri framtíðarsýn um stefnu samningsaðila sem miðar að því að bæta lífskjör og lífsgæði skjólstæðinganna.“

Nánari upplýsingar:

Upplýsingasíða TR um breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu