Byggingarheimild
Byggingarheimild er nýtt hugtak sem varð til við breytingu á byggingarreglugerð 123/2010 í árslok 2021 (nr. 1321/2021).
Breyting byggingarreglugerðarinnar fólst fyrst og fremst í því að byggingarframkvæmdum var skipt upp í þrjá flokka eftir umfangi þeirra, í þeim tilgangi að skýra stjórnsýslu í mannvirkjamálum og gera umsóknarferlið skilvirkara. Kröfur um hönnun og byggingareftirlit eru þær sömu hvort sem um er að ræða byggingarheimild eða byggingarleyfi. Kröfur um yfirferð séruppdrátta og skil á þeim áður en viðkomandi verkþáttur er unninn er þó rýmri á málum sem fá byggingarheimild, séruppdrættir þurfa að liggja fyrir áður en sótt er um öryggis- og lokaúttekt. Á málum sem fá byggingarheimild er auk þess ekki skylda að skrá iðnmeistara verksins hjá byggingarfulltrúa – en þó er skylda að byggingarstjóri verksins haldi utan um þær upplýsingar í sínu gæðakerfi.
Umsókn og veiting byggingarheimildar á við um þau mannvirki sem falla í umfangsflokk 1 skv. byggingarreglugerð. Í þessum umfangsflokki eru „minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar mögulegs tjóns á mannvirki eru litlar og umhverfisáhrif eru takmörkuð“ – eins og segir í grein 1.3.2 byggingarreglugerðarinnar. Haft er til viðmiðunar að í þessum umfangsflokki séu mannvirki þar sem ekki safnast saman mikill fjöldi fólks og fólk hefur ekki fasta búsetu. Í umfangsflokk 1 falla t.d. eftirtaldar byggingarframkvæmdir:
- Geymsluhúsnæði
- Landbúnaðarbyggingar
- Frístundahús (sumarhús)
- Sæluhús
- Stakstæðir bílskúrar
- Gestahús
- Skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki.
- Niðurrif mannvirkja (að hámarki 4 hæðir og/eða minna en 2.000 fermetrar)