Ný gjaldskrá leikskóla - Algengar spurningar
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt breytingar á gjaldskrárumhverfi leikskóla sveitarfélagsins sem munu taka gildi þann 1. mars 2025. Breytingarnar á gjaldskránni eru tilkomnar sem viðbragð við þeim áskorunum sem Fjarðabyggð, líkt og önnur sveitarfélög, hafa staðið frammi fyrir í leikskólastarfi varðandi álag á starfsfólk, mönnunarvanda og til að tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks.
Með bættu starfsumhverfi leikskólanna verður auðveldara að halda í starfsfólk og koma í veg fyrir þjónustuskerðingar.
Hér er tengill á reiknivél fyrir leikskólagjöld (2025) - Reiknivel
Gjaldskrá leikskóla 2025, gildir frá 1.3.25
Fjarðabyggð leggur áherslu á að breytingarnar í umhverfi leikskóla séu nauðsynlegar til að tryggja rekstraröryggi þeirra og bæta þjónustuna. Leikskólastarfið, þó gjöfult sé, er gríðarlega krefjandi og þar sem hæft starfsfólk verður ekki til í tómarúmi er nauðsynlegt að minnka álag og bæta vinnutíma, svo að auðveldara verði fyrir leikskólana að halda í gott fólk. Með því móti styðjum við enn frekar við faglegt starf og áreiðanleika í þjónustu sem er öllum fyrir bestu, starfsfólkinu, fjölskyldunum og börnunum.
Með breytingunum verður þar að auki innleiddur meiri sveigjanleiki fyrir fjölskyldur, þar sem foreldrar geta nú valið mismunandi viðverutíma fyrir börn sín eftir dögum og greitt aðeins fyrir þann tíma sem nýttur er. Þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir fjölskyldur í vaktavinnu eða með ólíkar þarfir á mismunandi dögum og hentar þeim breytingum sem orðið hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár.
Auk þess lækka almenn vistunargjöld fyrir sex tíma vistun umtalsvert, eða um 30%, sem hvetur til styttri dvalartíma barna. Auknar hækkanir á vistunartíma utan þessa ramma stafa meðal annars af þörfinni á að mæta auknu álagi, bættan vinnutíma og þeim mönnunarvanda sem blasir við. Þess má geta að önnur sveitarfélög hafa innleitt svipaðar breytingar með góðum árangri.
Tekjutengdir afslættir verða hækkaðir úr 30% í 50% og taka til dagvistunargjalda, viðbótarvistunargjalda og skráningardaga. Auk þess ná tekjutengingarnar nú til stærri hóps með hærri viðmiðunarmörkum. Frístundastyrkur barna hækkar um 80%, eða úr 10.000 kr. í 18.000 kr. Hádegismatur verður áfram gjaldfrjáls, og systkinaafslættir haldast óbreyttir, með 50% afslætti fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn.
Vistunargjald fyrir sex tíma vistun er lækkað um 30% og fer svo hækkandi eftir sex tíma vistun. Að auki eru börn tekin inn um 12 mánaða aldur sem á alls ekki við í öllum sveitarfélögum.
Lögð er áhersla á að breytingarnar miði að því að bæta starfsumhverfi leikskólanna, draga úr álagi á starfsfólk og börn og tryggja áframhaldandi faglegt starf. Með því á að vera auðveldara að halda starfsfólki og koma í veg fyrir þjónustuskerðingar.
Styttri dvalartími hefur jákvæð áhrif á börnin sem og skipulag og starfsemi leikskóla. Öll stytting hefur því jákvæð áhrif á leikskólastarfið, minnkar álag, styrkir faglegt starf og auðveldar mönnun.
Já, hægt er að hafa mismunandi dvalartíma milli daga en lágmarksdvalarlengd er fjórar klukkustundir á dag. Við útreikning leikskólagjalda er miðað við meðalfjölda dvalartíma á dag. Opnunartími leikskóla verður samræmdur frá klukkan 07:45 – 16:15.
Sem dæmi þá er hægt að skrá barna í átta tíma dvöl kl. 08:00-16:00 þrjá daga vikunnar og sex tíma einn dag og fimm tíma einn dag, samtals 35 tíma á viku eða að meðaltali sjö tíma á dag og taka leikskólagjöld mið af því.
Hér eru nokkur dæmi um samsetningu á dvalartíma barna í leikskólum og almennt vistunargjald fyrir þá dvöl á tímabilinu klukkan 08:00 – 16:00. Athugið að eingöngu er um dæmi að ræða og þau eru ekki tæmandi hvað varðar útfærslur á dvalartíma barna. Upphæðir í dæmum miðast við fullt gjald án afslátta:
- Allir dagar átta tímar, alls 40 tímar: Almennt vistunargjald á mánuði 42.000 kr., með fæði 47.406 kr.
- Allir dagar sjö tímar, alls 35 tímar: Almennt vistunargjald 31.000 kr., með fæði 36.406 kr.
- Allir dagar sex tímar á dag, alls 30 tímar: Almennt vistunargjald 17.000 kr., með fæði 22.406 kr.
Athugið að leikskólagjöld eru reiknuð eftir dvalartíma þannig að ef heildartími styttist eða lengist þá breytast gjöld sem því nemur. Ósk um breytingu á dvalartíma eru gerðar hjá leikskólastjóra viðkomandi leikskóla.
Umfram almennt vistunargjald er viðbótarvistunargjald fyrir 15 mínútna tímabilið frá klukkan 07:45 – 08:00 sem mun kosta 10.000 kr. á mánuði og 15 mínúturnar á tímabilinu 16:00 – 16:15 kosta 5.000 kr. á mánuði.
Skráningardagar eru samtals 20 á hverju ári. Gjald fyrir hvern skráningardag er 5.000 kr. og kemur til viðbótar við dvalargjöld. Foreldrar og forsjáraðilar þurfa að skrá börnin sín á skráningardaga í upphafi hverrar annar eða í síðasta lagi 15. ágúst fyrir haustönn og 15. desember fyrir vorönn.
Markmiðið með skráningardögum er að gefa foreldrum tækifæri til að spara leikskólagjöld ef þeir geta haft börnin heima á skráningardögum og til að starfsmenn geti í meira mæli nýtt orlofsdaga sína eða tekið út styttingu vinnuvikunnar þessa daga. Allir skráningardagar munu birtast í skóladagatölum leikskólanna í mars mánuði ár hvert.
Skráningardagar koma fram í gjaldskrá leikskóla Fjarðabyggðar. Einnig munu foreldrar/forráðamenn geta séð skráningadaga í skóladagatölum leikskólanna en nýtt skóladagatal er birt í mars mánuði ár hvert.
Skráningardagarnir 2025 eru sem hér segir: Vetrarfrí að vori:
• Dagsetningar koma fram í skóladagatölum grunnskólanna.
14. – 16. apríl (3 dagar í dymbilviku)
25. apríl (föstudagur)
2. maí (föstudagur)
30. maí (föstudagur)
16. júní (mánudagur)
Vetrarfrí að hausti
• Dagsetningar koma fram í skóladagatölum grunnskólanna.
22. desember (mánudagur)
23. desember (þriðjudagur)
29. desember (mánudagur)
30. desember (þriðjudagur)
Hver leikskóli ákvarðar fjóra skráningadaga í viðbót við ofangreindar dagsetningar sem verða tilgreindir í skóladagatali hvers skólaárs.
Foreldrum/forsjáraðilum býðst að sækja um tekjutengdan afslátt. Tekjutengdur afsláttur er 50% af dvalargjöldum það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga.
Tekjuviðmið:- Einstaklingar sem falla undir tekjuviðmið 0 - 9.000.000 kr. geta sótt um 50% afslátt af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga, en fæðisgjald fellur ekki þar undir.
- Sambúðarfólk sem fellur undir tekjuviðmið 0 - 13.600.000 kr. geta sótt um 50% afslátt af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga, en fæðisgjald fellur ekki þar undir.
Systkinaafsláttur reiknast af dvalargjöldum og viðbótardvalargjöldum en ekki fæðisgjöldum. Systkinaafsláttur fer eftir fjölda yngri systkina. Við útreikning á systkinaafslætti leikskólabarna eru talin með öll yngri systkini sem eru í leikskóla.
Systkinaafsláttur í leikskóla er 50% ef barn á eitt yngra systkini í leikskóla, en 100% ef barn á tvö yngri systkini eða fleiri.
Fjarðabyggð hefur nú í nokkur ár boðið upp á gjaldfrjálsan hádegismat fyrir börn í leikskólum sveitarfélagsins. Foreldrar/forráðamenn borga því aðeins fyrir morgun- og síðdegishressingu á meðan á vistunartíma barna stendur. Fæðisgjaldið er á mánuði 2.703 kr. fyrir morgunhressinguna og 2.703 kr. fyrirsíðdegishressinguna. Fæðisgjaldið er því samtals 5.406 kr. á mánuði fyrir fulla átta tíma vistun.
Opnunartími leikskóla Fjarðabyggðar verður frá klukkan 07:45 – 16:15.
Faglegt starf leikskólanna fer fram á tímabilinu 09:00 – 14:00. Frjáls tími, morgunverður og leikstundir eru frá 07:45 - 09:00 á morgnanna og eftir klukkan 14:00. Lágmarksdvalarlengd er fjórar klukkustundir á dag, hvern dag vikunnar. Dvalartími getur verið sveigjanlegur umfram fjórar klukkustundir. Fjórum sinnum á ári (tvisvar á önn) hefst skóladagurinn annað hvort kl. 10:10 eða lýkur kl. 13:50 vegna starfsmannafunda. Skert opnun vegna starfsmannafunda verður tilgreind í skóladagatali hvers skólaárs.
Óskað er eftir breytingum í samráði við leikskólastjóra.
Allir þessir dagar falla undir skráningadaga sem fjallað er um hér að ofan. Það eru þeir dagar þar sem foreldrar þurfa að skrá börn sín sérstaklega í vistun og kostar hver skráningardagur 5.000 kr. sem bætist ofan á dvalargjöld þann mánuðinn.
Reiknivél leikskólagjalda verður aðgengileg á vef Fjarðabyggðar. Hægt verður að nota hana til þess að skoða hvernig leikskólagjöld koma út miðað við dvalartíma barns. Útreikningur leikskólagjalda byggir á meðaltali dvalartíma á dag. Í reiknivélinni er einnig unnt að setja inn tekjutengdan afslátt.
Foreldrar geta komið með ábendingar og sent fyrirspurnir á netfangið fjardabyggd@fjardabyggd.is