Laugardaginn 20. desember nk. verða 40 ár liðin frá því að snjóflóðin féllu í Neskaupstað. Í minningu þess verður haldin kyrrðarstund í Norðfjarðarkirkju og opið hús verður í Egilsbúð.
40 ár liðin frá snjóflóðunum í Neskaupstað
Kyrrðarstund verður í Norðfjarðarkirkju, laugardaginn 20. desember nk. kl. 15:00, í minningu þess að þá eru 40 ár liðin frá því að snjóflóðin féllu í Neskaupstað.
Kyrrðarstundina leiðir sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson. Tónlistarflutning annast Þórður Sigurðarson organisti, kór Norðfjarðarkirkju og Tónskóli Neskaupstaðar.
Þá flytja Jón Hilmar Kárason, Þorlákur Ægir Ágústsson og Guðmundur Gíslason lag Guðmundar Solheim, sem tileinkað er minningu þeirra sem fórust í snjóflóðunum.
Að kyrrðarstund lokinni verður opið hús í Egilsbúð í boði Fjarðabyggðar. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, flytur ávarp kl. 16:00 og Flóðið, sýning Jóns Hilmars Kárasonar og Jóns Knúts Ásmundssonar frá árinu 2010, verður endursýnd að hluta.
Þá verða einnig til sýnis uppdrættir af minningarreit, sem opnaður verður almenningi á næsta ári, í minningu þeirra sem farist hafa í snjóflóðum á Norðfirði, ásamt frumgerð úr minnisvarða minningarreitsins.