mobile navigation trigger mobile search trigger
06.12.2024

Breytingar á gjaldskrárumhverfi leikskólanna í Fjarðabyggð

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt breytingar á gjaldskrárumhverfi leikskóla sveitarfélagsins sem munu taka gildi þann 1. mars 2025. Breytingarnar á gjaldskránni eru tilkomnar sem viðbragð við þeim áskorunum sem Fjarðabyggð, líkt og önnur sveitarfélög, hafa staðið frammi fyrir í leikskólastarfi varðandi álag á starfsfólk, mönnunarvanda og til að tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks.

Breytingar á gjaldskrárumhverfi leikskólanna í Fjarðabyggð
Leikskólinn Lyngholt, Reyðarfirði.

Með bættu starfsumhverfi leikskólanna verður auðveldara að halda í starfsfólk og koma í veg fyrir þjónustuskerðingar.

Breytingarnar á gjaldskránni fela í sér að opnunartími leikskólanna er samræmdur, og verða leikskólar Fjarðabyggðar frá 1. mars með opnunartíma frá 07:45 – 16:15. Vistunargjald fyrir sex tíma vistun  er lækkað um 30%, og fer svo hækkandi eftir sex tíma vistun. Með þessari nálgun er horft til þess að búa til hvata fyrir notendur þjónustunnar, sem það geta, að draga úr vistunartíma og minnka þannig álag á starfsfólk leikskólanna. Auk þess er tekið upp gjald fyrir svokallaða skráningardaga. Skráningardagar eru 20 á ári og munu kosta 5000 kr. pr. dag. Skráningardagar eru meðal annars í dymbilviku og milli jóla og nýárs.

Nýtt fyrirkomulag með sveigjanleika

Fjarðabyggð leggur áherslu á að breytingarnar séu nauðsynlegar til að tryggja rekstraröryggi leikskólanna og bæta þjónustuna. Leikskólastarfið, þó gjöfult sé, er gríðarlega krefjandi og þar sem að hæft starfsfólk verður ekki til í tómarúmi viljum við koma til móts við það með því að minnka álag og bæta vinnutíma, svo að auðveldara verði fyrir leikskólana að halda í gott fólk.

Með þessum breytingum er ætlunin að búa til aukinn sveigjanleika í starfsemi leikskólanna til að koma til móts við breyttan vinnutíma starfsfólks, tryggja að starfsmenn geti tekið kjarasamningsbundinn undirbúningstíma og reyna að koma í veg fyrir ítrekaðar ófyrirséðar þjónustuskerðingar sem leiða til tímabundinna lokanna. Með auknum sveigjanleika getur fólk valið mismunandi tíma á mismunandi dögum, sem getur meðal annars hentað vaktavinnufólki og hlutastarfandi.

Aukin afsláttarkjör

Tekjuviðmið vegna afslátta af dvalargjöldum í gjaldskránni eru hækkuð, og verður nú miðað við árstekjur upp á níu milljónir fyrir einstaklinga, og 13,6 milljónir  fyrir sambúðarfólk. Auk þess hækka tekjutengd afsláttarkjör úr 30% í 50%. Þá ná afslættir nú til dvalargjalda, viðbótarvistunargjalda og skráningardaga, en áður náðu afsláttarkjör eingöngu til dvalargjalda.

Hádegisverður á leikskólum verður áfram gjaldfrjáls og hækkun á morgun- og síðdegishressingum nemur  2,5%. Þá eru systkinaafslættir óbreyttir, þ.e. 50% afsláttur af öðru barni og 100% fyrir þriðja barn.

Kynningarfundir

Haldnir verða kynningarfundir með foreldrum í janúar þar sem farið verður yfir breytingarnar.

  • Þriðjudaginn 14. janúar kl. 20:00 í leikskólanum Dalborg
  • Miðvikudaginn 15. janúar kl. 20:00 í Skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði

Reiknivél leikskólagjalda

Reiknivél leikskólagjalda verður aðgengileg á vef Fjarðabyggðar. Hægt verður að nota hana til þess að skoða hvernig leikskólagjöld koma út miðað við dvalartíma barns. Útreikningur leikskólagjalda byggir á meðaltali dvalartíma á dag. Í reiknivélinni er einnig unnt að setja inn tekjutengdan afslátt. Hér að neðan má sjá skjáskot af reiknivélinni og hvernig hún kemur til með að líta út.

 Hægt er að nálgast spurt og svarað varðandi helstu breytingar hér.

Frétta og viðburðayfirlit