Undanfarið ár hafa sérfræðingar Veðurstofu Íslands unnið með Almannavarnarnefnd Austurlands að því að uppfæra rýmingarkort vegna ofanflóðahættu fyrir þéttbýli í Múlaþingi og Fjarðabyggð. Um er að ræða rýmingarkort fyrir Seyðisfjörð, Neskaupstað, Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð. Voru hin nýju kort staðfest af Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-orku- og loftlagsráðherra í dag, fimmtudaginn 28. nóvember, og taka nú gildi í stað eldri korta.
Framsetning á rýmingarkortum bætt
Nýir rýmingareitir taka nú tillit til ofanflóðavarna sem risið hafa frá því hættumat ofanflóða var gert ásamt öðrum þáttum sem draga úr hættu. Tekið er tillit til snjóflóða, krapaflóða og skriðufalla. Ein mikilvægasta breytingin er sú að nú eru kortin sett fram á stafrænan hátt og verða aðgengileg á kortasjá á heimasíðu sveitarfélaganna sem um ræðir, Múlaþings og Fjarðabyggðar, og taka þannig tillit til breytinga innan þéttbýlanna með nýjum götum og húsum. Þá mun þetta einfalda skipulag og vinnu viðbragðsaðila ef til rýmingar kemur til að vinna með nýjustu landupplýsingar og önnur stafræn gögn og þannig efla almannavarnarviðbragð.
Ný kort taka gildi í dag og verða jafnframt aðgengileg íbúum á kortasjám á heimasíðum Múlaþings og Fjarðabyggðar á næstu dögum. Geta þá íbúar kynnt sér á hvaða rýmingareitum hús þeirra eru. Jafnframt mun Almannavarnarnefnd Austurlands bjóða upp á kynningu fyrir íbúa sem hér segir:
Herðubreið á Seyðisfirði þriðjudaginn 3. desember kl: 17:00.
Grunnskólanum á Stöðvarfirði miðvikudaginn 4. desember kl: 16:00.
Grunnskólanum á Fáskrúðsfirði miðvikudaginn 4. desember kl: 18:00.
Grunnskólinn á Eskifirði fimmtudaginn 5. desember kl: 20:00.
Kynning á kortum fyrir Neskaupstað fór fram á fundi þar í lok október sl.