Á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 25. nóvember var lagður fram undirskriftarlisti þar sem gerð er krafa um upplýsingafund vegna fyrirhugaðra breytinga í fræðslumálum. Bæjarráð vísar til bókunar frá bæjarráðsfundi númer 871, að starf- og rýnihópar leik- og grunnskóla hafi samþykkt að fresta störfum hópanna þar til kjarasamningar við Kennarasamband Íslands hafa verið gerðir.
Bókun bæjarráðs vegna framlagningar undirskriftarlista
Bókun bæjarráðs er eftirfarandi:
Bæjarráð vísar til bókunar frá bæjarráðsfundi nr. 871 sem segir að starf- og rýnihópar leik- og grunnskóla hafi samþykkt að fresta störfum hópanna þar til kjarasamningar við Kennarasamband Íslands hafa verið gerðir. Í ljósi þess að kjarasamningar hafa ekki enn náðst er óvissa um samningsbundna skilmála og umgjörð skólastarfsins. Stefnt er að því að taka upp þráðinn á nýju ári og vinna að niðurstöðum í hópunum í tíma fyrir skólaárið 2025-2026. Þó verður tekið mið af breytingum á gjaldskrá leikskóla, sem stefnt er að innleiða um komandi áramót, þar sem lögð er áhersla á að efla starfsumhverfi skólanna. Bæjarráð mun halda áfram að fylgjast með þróun mála og tryggja að starfshóparnir fái viðeigandi stuðning til að ná fram umbótum í samræmi við nýja kjarasamninga og markmið sveitarfélagsins um öflugt og faglegt skólastarf. Þegar kjarasamningar liggja fyrir verður málið tekið fyrir og kynnt hlutaðeigandi aðilum.