Rokkhátíðin Eistnaflug fór fram í Neskaupstað í 10.skipti um síðustu helgi. Aldrei hafa fleiri sótt hátíðina en uppselt var á hana. Hátíðin tókst frábærlega í alla staði og framkoma gesta þeim til mikils sóma.
Að afloknu Eistnaflugi
Hátíðin hófst miðvikudaginn 9. júlí þar sem boðið var upp á þungarokk fyrir yngri kynslóðina þar sem Severed, Brain Police og Skálmöld komu fram. Seinna um kvöldið, þegar þau yngri voru komin í háttinn, stigu Sólstafir á svið og fluttu nánast eingöngu óútgefið efni, viðstöddum til mikillar gleði.
Fimmtudagurinn var sólríkur í Neskaupstað en þá bættu aðstandendur við 100 aukamiðum sem seldust upp á augabragði. Einum af hápunktum hátíðarinnar var náð þegar hin sænska At The Gates tryllti lýðinn en sveitin var á sínum tíma frumkvöðull í harðkjarnatónlist.
Margir vöknuði votir á föstudagsmorgninum þar sem hressilega rigndi um nóttina. Mikið var um að vera um allan Neskaupstað þennan dag en auk auglýstra dagskrárliða fóru fram fjölbreyttir off-venue tónleikar í Blúskjallaranum og Stálsmiðjunni.
Lokadagur hátíðarinnar var sérstakur fyrir þær sakir að hann skartaði tveimur af „léttustu atriðum“ hátíðarinnar til þessa. Jónas. Sig og Ritvélar framtíðarinnar fengu frábærar viðtökur og Retro Stefson sá um að loka hátíðinni. Þegar Ham stigu á sviðið um miðnætti var húsið gjörsamlega pakkað þegar hér var komið við sögu og öllum ljóst að 10 ára afmælishátíðin var sú besta frá upphafi. Stefán Magnússon, eigandi og helsti skipuleggjandi hátíðarinnar, ávarpaði áhorfendur áður en Retro Stefson keyrði fjörið í gang og var klökkur þegar hann þakkaði fólki fyrir þá glæsilegu hegðun, móttækileika og opna hug sem allir sýndu þessa fjóra daga.
“Aðstandendur Eistnaflugs 2014 þakka kærlega fyrir sig. Nú er ljóst að hátíðin fór óaðfinnanlega fram og eftir að búið var að skúra Egilsbúð og hreinsa tjaldstæðið var líkt og ekkert hefði í skorist. Hér fyrir utan standa sumarblómin meira að segja ennþá heil í blómapottunum, hvað þá annað.
Lögreglan biður fyrir sérstakar kveðjur og þakkar fyrir vandræðaleysi og góða framkomu í sinn garð. Eigendur gistiheimila, verslana og veitingastaða segja sömu sögu og hvert sem litið er brosir heimafólk hringinn. Það er ykkur að þakka, ykkur hátíðargestum og listamönnum sem stiguð á stokk. Þetta er ómetanlegt. Takk fyrir okkur!”