Áhöfn franska seglbátsins Port de Gravelines býður almenning velkominn um borð í dag kl. 12:00-14:00. Báturinn kom til Fáskrúðsfjarðar sl. sunnudag eftir níu daga siglingu frá Gravelines og liggur við nýju bryggjuna hjá Fosshótel Austfjörðum.
Almenningur boðinn velkominn um borð
Áhöfn franska seglbátsins Port de Gravelines býður almenning velkominn um borð í dag kl. 12:00-14:00. Báturinn kom til Fáskrúðsfjarðar sl. sunnudag eftir níu daga siglingu frá Gravelines, vinabæjar Fjarðabyggðar á norðurströnd Frakklands. Sigld var sama leið og frönsku skúturnar fóru þegar sótt var á Íslandsmið á 19. og 20. öld.
Port de Gravelines er 51 feta seglbátur í eigu Gravelinesborgar. Skipstjórinn, Philippe Delassus, annast um daglegan rekstur hans, en báturinn var upphaflega keyptur af borginni sem keppnisbátur fyrir Skippers d'Islande siglingakeppnina. Keppt hefur verið á bátnum í öðrum keppnum og hefur honum m.a. verið siglt umhverfis jörðina í tvígang í alheimssiglingakeppni.
Útlit er fyrir skv. veðurspá að siglt verði frá Fáskrúðsfirði á morgun, fimmtudag. Leiðin liggur til Reykjavíkur, þar sem áhafnarskipti fara fram áður en Port de Gravelines verður siglt heim á leið. Um borð er auk skipstjórans sjö manna áhöfn.
Port de Gravelines liggur við nýju bryggjuna við Franska spítalann (Fosshótel Austfirðir).