Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands rak smiðshöggið á eitt athyglisverðasta verkefni síðustu ára, með því að festa skjöld Minjaverndar á Franska spítalann, á opnunarhátíð sem fram fór á Fáskrúðsfirði. Þá opnaði forseti einnig formlega safnið Fransmenn á Íslandi.
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands rak smiðshöggið á eitt athyglisverðasta verkefni síðustu ára, með því að festa skjöld Minjaverndar á Franska spítalann, á opnunarhátíð sem fram fór á Fáskrúðsfirði sl. laugardag. Þá opnaði forseti einnig formlega safnið Fransmenn á Íslandi, sem helgað er menningararfi franskra sjómanna, með því að festa skjöld safnsins á Læknishúsið.
Að opnunarathöfn lokinni tóku auk forseta til máls Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í máli sínu þakkaði Þröstur gott samstarf við sveitarfélag og heimamenn og rakti verkefnið í grófum dráttum, en á heildina litið nemur fjárfesting Minjaverndar í verkefninu um einum milljarði króna.
Þýðing verkefnisins fyrir samfélagið á Fáskrúðsfirði, mannlíf og ásýnd bæjarins var forseta og bæjarstjóra hugleikið. Þá báru báðir lof á Minjavernd fyrir einstaklega vel unnið verk og vandað.
Auk þess sem frönsku húsin og safnið á Fáskrúðsfirði opnaði formlega, var Litla kapellan blessuð. Bróðir David Tencer, kapúsínamunkur á Reyðarfirði, blessaði. Litla kapellan er eina húsið af þeim fimm, sem Minjavernd hefur endurbyggt eða endurgert frá grunni, sem gegnir enn upphaflegu hlutverki sínu. Í hinum fjórum, sem eru Franski spítalinn, Læknishúsið, Sjúkraskýlið og Líkhúsið, er nú til húsa Fosshótel Austfirðir, veitingarstaðurinn l'Abri og safnið Fransmenn á Íslandi.
Þá opnaði Steinþór Pétursson, framkvæmdastjóri Fjarðabyggðahafna, Frönsku bryggjuna neðan við Franska spítalann, en hana lagði Minjavernd með stuðningi Fjarðabyggðahafna.
Opnunarathöfnin fór fram á frönskum dögum að viðstöddu fjölmenni. Þar á meðal voru bæjarstjórn Fjarðabyggðar, Marc Bouteiller, sendiherra Frakklands á Íslandi, Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Frakklandi, Lionel Tardy, formaður frönsk-íslensku samstarfsnefndar franska þjóðþingsins, Jean-Yves de Chaisemartin, borgartjóri í Paimpol og Michèle Kerckhof, varaborgarstjóri Gravelines.
Hér að neðan má sjá svipmyndir af opnunarathöfn, blessun Litlu kapellunnar og minningarathöfn Franskra daga í Franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði.