Grein Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra um hafnsækna starfsemi í Fjarðabyggð.
Aukin hafnsækin starfsemii
Fjarðabyggð hefur á undanförnum misserum unnið markvisst að atvinnuskapandi verkefnum en ljóst er að inneign samfélagsins er umtalsverð í þeim efnum, ekki hvað síst gagnvart fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu.
Eykon, sem aðild á að tveimur af þremur vinnsluleyfum á Drekanum, hefur nú þegar valið Fjarðabyggð sem þjónustuhöfn og ef fram heldur sem horfir, munu skapast kjöraðstæður á Austurlandi til uppbyggingar á öflugri þjónustumiðstöð fyrir íslenskan og alþjóðlegan olíuiðnað. Miklir hagsmunir eru í húfi en eins og þjónustumiðstöð norska olíuiðnaðarins í Stavanger er nærtækt dæmi um, spannar slík atvinnuþróun verulega breidd í fjölda og tegund starfa.
Undirbúningsvinna að þessu viðamikla verkefni hófst fyrir hálfu öðru ári með greiningu á þeim meginforsendum sem leyfishafar styðjast við í staðarvali fyrir slíka miðstöð. Frumathuganir á vegum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs leiddu í ljós, að saman stæðu sveitarfélögin sterk að vígi, bæði hvað innviði og mannauð snertir, m.a. með tilliti til stóriðjuverkefna síðasta áratugar. Sveitarfélögin gerðu því samkomulag um samstarf vegna verkefnisins. Staðarvalsúttekt verkfræðistofunnar Mannvits staðfesti síðar þessar niðurstöður en samkvæmt skýrslu sem gefin var út í janúar á síðasta ári, hlutu sveitarfélögin flest stig af þeim sex stöðum sem fýsilegastir þóttu á landinu öllu.
Ráðist var í nauðsynlega þarfagreiningu fyrir skipulagsverkefni gagnvart uppbyggingu og rekstri á slíkri þjónustumiðstöð. Um nokkra áfanga er að ræða, en hversu margir þeir verða ræðst alfarið af gangi olíuleitarinnar. Í fyrstu verður um einfalda þjónustu að ræða fyrir leitarskip, er varðar vistir, búnað, áhafnarskipti og annað í þeim dúr. Gert er ráð fyrir að Reyðarfjarðarhöfn gegni því hlutverki fyrsta kastið, en þegar og ef olía í vinnanlegu magni finnst, verður um mun umfangsmeiri þjónustu að ræða og færist þungamiðjan þá til Mjóeyrarhafnar, þar sem nægt landrými er til staðar ásamt nauðsynlegum samgöngu- og veitukerfum. Samhliða skipulagsvinnunni var einnig unnið í kynningarmálum og var m.a. gefið út kynningarmyndband um verkefnið á ensku og íslensku sem nálgast má á Vimeo-síðu verkefnis.
Auk sterkra samfélagslegra innviða eru helstu forsendur þess að fyrirhuguð uppbygging fái staðið undir sér, öflugur rekstur Fjarðabyggðarhafna sem mynda samanlagt aðra stærstu höfn landsins næst á eftir Faxaflóahöfnum, alþjóðlegi flugvöllurinn á Egilsstöðum og sérhæfð þjónustu- og verktakastarfsemi tengd sjávarútvegi og álveri Alcoa Fjarðaáls, ásamt því samfellda atvinnusvæði sem byggst hefur upp á Austurlandi.
Undirbúningsferlinu lauk svo nýlega með tímabundinni ráðningu Ástu Kristínar Sigurjónsdóttur sem verkefnastjóra í atvinnumálum hjá Fjarðabyggð. Við ráðningu Ástu Kristínar var m.a. litið til fyrri starfa hennar sem sviðsstjóra nýsköpunar og þróunar hjá Austurbrú, ásamt yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu hennar á atvinnu- og efnahagslífi landsfjórðungsins.
Á ofangreindu má sjá að ýmislegt hefur þokast í þessu viðamikla verkefni en unnið verður áfram að því af krafti á næstu misserum. Ef allt gengur eftir verður framtíðin enn bjartari fyrir Austfirðinga alla, enda samstarf sveitarfélaga á Austurlandi í þessu máli lykilatriði til að verkefnið nái fram að ganga.