mobile navigation trigger mobile search trigger
01.12.2014

Austurland: DESIGNS FROM NOWHERE hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2014

Karna Sigurðardóttir og Þórunn Árnadóttir tóku nýlega við Hönnunarverðlaunum Íslands fyrir hönd verkefnisins Austurland: Designs from Nowhere. Ríflega 100 tilnefningar bárust. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent.

Austurland: DESIGNS FROM NOWHERE hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2014

Karna Sigurðardóttir og Þórunn Árnadóttir tóku nýlega við Hönnunarverðlaunum Íslands fyrir hönd verkefnisins Austurland: Designs from Nowhere. Ríflega 100 tilnefningar bárust. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent.  

Austurland: Designs from Nowhere, er verkefni sem snýst um að kanna möguleika til framleiðslu og atvinnuuppbyggingar á Austurlandi, þar sem notast er við staðbundin hráefni og þekkingu. Karna Sigurðardóttir, vöruhönnuður og kvikmyndaleikstjóri, og Pete Collard, listrænn stjórnandi hjá Design Museum í London, áttu frumkvæði að verkefninu. Þau fengu til liðs við sig hönnuðina Þórunni Árnadóttur, Max Lamb, Juliu Lohmann og Gero Grundmann til að þróa sjálfstæð verkefni í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki á Austfjörðum. Markmiðið var að nýta þær auðlindir sem felast í verkþekkingu og efniviði svæðisins.

Hönnuðirnir störfuðu ýmist með gamalgrónum fyrirtækjum eins og netagerðinni Egersund á Eskifirði sem og einstaklingum á borð við Vilmund Þorgrímsson sem býr yfir yfirgripsmikilli sérþekkingu á náttúru Austurlands. Áhrif samstarfsaðilanna á hönnunarferlið endurspeglast í verkunum sem eru gerð úr netum, hreindýrahorni, þara, rekavið og grjóti.

Fjarðabyggð studdi verkefnið með láni á Jensens húsi fyrir verkefnastjórn og hönnuðinn sem vann með Egersund.

Í tilkynningu frá dómnefnd segir: „Verkefnið þykir sýna á afar sannfærandi hátt að hlutverk hönnuða í dag felst í æ ríkari mæli í því að efla sýn og auka metnað til sköpunar og framleiðslu. ... Verkefnið, sem var bundið við Austurland, sýnir að með samstilltri sýn og virðingu fyrir menningu á hverjum stað, þar sem handverk, þekking og staðbundinn efniviður er kannaður til hlítar, felur í sér aukin tækifæri til að skapa framúrskarandi verk og hlýtur að vera hvatning öllum til handa.“

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaunum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, en tilgangur þeirra er að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs ásamt því að veita hönnuðum/arkitektum hvatningu og viðurkenningu.

Þau verkefni sem einnig hlutu tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands eru Ljósmyndastúdíó H71a á Hverfisgötu, hannað af Stúdíó Granda, Magnea AW2014 eftir fatahönnuðinn Magneu Einarsdóttur og verkið Skvís eftir Sigga Eggertsson en dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2014 var skipuð af Hörpu Þórsdóttur, forstöðumanni Hönnunarsafns Íslands, Massimo Santanicchia, lektors í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, Erni Smára Gíslasyni, sjálfstætt starfandi grafísks hönnuðar Laufeyju Jónsdóttur, fatahönnuði og formanni Fatahönnunarfélags Íslands og Tinnu Gunnarsdóttur, sjálfstætt starfandi hönnuði og kennara við Listaháskóla Íslands.

Un Hönnunarverðlaun Íslands 2014

 

 

Frétta og viðburðayfirlit