mobile navigation trigger mobile search trigger
05.03.2014

Endurhæfing eitt helsta meðferðarúrræðið við lífsstílssjúkdómum

Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN), veitti í dag viðtöku árskortum í sundlaugar Fjarðabyggðar. Kortin eru rafræn og veita sjúklingum endurhæfingardeildar sjúkrahússins ókeypis aðgang í sundlaugar Fjarðabyggðar á meðan á meðferð stendur.

Endurhæfing eitt helsta meðferðarúrræðið við lífsstílssjúkdómum
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, ásamt Önnu Þóru Árnadóttur, yfirsjúkraþjálfa, Hörpu Rún Björnsdóttur, Hosunum líknarfélagi starfsmanna FSN, Benedikt Sigurjónssyni, forstöðumanni Sundlaugar Norðfjarðar og Valdimar O. Hermannssyni, rekstrarstjóra FSN. Mynd: Kristín Svanhvít Hávarðardóttir.

Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN), tók í dag við árskortum í sundlaugar Fjarðabyggðar. Kortin eru rafræn og veita sjúklingum endurhæfingardeildar sjúkrahússins ókeypis aðgang í sundlaugar Fjarðabyggðar á meðan á meðferð stendur.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, afhenti sundkortin ásamt Benedikt Sigurjónssyni, forstöðumanni Sundlaugar Norðfjarðar. Í máli sínu benti Páll Björgvin m.a. á ein helsta forsenda atvinnulífs og áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á Austurlandi sé, að Fjórðungssjúkrahúsið veiti öfluga heilbrigðisþjónustu í takt við þarfir samfélagsins sem henni er ætlað að þjóna.

Lífsstílssjúkdómar eru í veldisvexti víðast hvar á Vesturlöndum. Ísland er þar engin undantekning en á hverju ári tapast af þeirra völdum um 12.000 lífár hér á landi, samkvæmt úttekt Alþjóðaheilbrigðis-stofnunarinnar, vegna ótímabærra dauðsfalla eða örorku. 

Endurhæfing er mikilvægur liður í meðferð sjúkdómanna og í mörgum tilvikum hryggjarstykkið í virkum meðferðarúrræðum, en einungis þrír viðurkenndir aðilar veita endurhæfingarmeðferð við lífsstílssjúkdómum; Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN), Reykjalundur í Mosfellsbæ og Kristneshælið á Akureyri.

Þá tók Valdimar við fleiri góðum gjöfum, en Hosurnar, líknarfélag starfsmanna FSN, gaf fjórðungssjúkrahúsinu þráðlausan mónitor og stólavigt.

Sjá frétt frá Fjarðabyggð um málið

 

Frétta og viðburðayfirlit