mobile navigation trigger mobile search trigger
07.11.2014

Flúorlosun á Reyðarfirði með því minnsta sem þekkist

Dr. Alan Davison, prófessor emeritus í umhverfislíffræði, fjallaði um áhrif álvera á nærumhverfi, einkum flúors, á opnum fundi á Reyðarfirði í gær. Flúorlosun Alcoa Fjarðaáls er með því minnsta sem hann hefur séð.

Flúorlosun á Reyðarfirði með því minnsta sem þekkist
Flúorlosun í Reyðarfirði er það lítil að umhverfinu stafar ekki hætta af, að sögn dr. Alan Davison. Ljósmynd Pétur Sörensson.

Dr. Alan Davison, prófessor emeritus í umhverfislíffræði, fjallaði um áhrif álvera á plöntu- og dýraríki, einkum flúors, á opnum fundi á Reyðarfirði í gær, en hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á því sviði og er á meðal virtustu sérfræðinga.

Dr. Davison hefur verið Alcoa Fjarðaál til aðstoðar við flúormælingar og lagði hann sem dæmi upp þær mælingar sem fram fara á grasi á sumrin. Hann tekur undir með Umhverfisstofnun, að flúorlosun í Reyðarfirði sé það lítil að umhverfinu ekki stafi hætta af og óþarfi sé að skola af matjurtum af þeirri ástæðu einni saman. Reyndar séu tölurnar frá álverinu með því lægsta sem hann hafi séð.

Þá telur hann að rannsaka þurfi áfram flúoruppsöfnun sem á sér stað í grasi í samspili við veðurfar og landslag fjarðarins. Bæði geti það falið í sér hagnýtar upplýsingar fyrir bændur, að sú dreifing verði kortlögð og eins sé um áhugavert rannsóknarefni fræðilega séð, sem hann segist ekki hafa kynnst áður. Vandræði sem geti af því hlotist standi þó líklega í nánum tengslum við úrkomu á hverjum tíma.

Á hinn bóginn fela, að sögn dr. Davison, mælingar í beinum í sér takmarkað upplýsingagildi um áhrif flúors á grasbíta. Orsakast það aðallega af því að áhrif eru einstaklingsbundin frá einu dýri til annars og iðulega afturkræf að einhverju leyti. Sauðfé geti náð sér af flúoreitrun svo framarlega sem tennur skemmist ekki. „Reynslan sýnir að almennar ályktanir verða ekki dregnar af beinmælingum. Það sem gildir í þessum efnum er því fyrst og fremst reglubundin sjónskoðun bænda í samstarfi við dýralækni. Flúor hefur ekki áhrif á gæði afurða og snýst eftirlit því fyrst og fremst um velferð dýrsins.“

Fundurinn með dr. Alan Davison fór fram á vegum Alcoa Fjarðaáls í Þórðarbúð, húsi björgunarsveitar Ársólar á Reyðarfirði.

Sjá viðtal í sjónvarpsfréttum RÚV, 6. nóvember
Sjá frétt á vef RÚV

 

Frétta og viðburðayfirlit