Flutningaskipið Akrafell strandaði við Vattarnes senmma í morgun. Engin merki eru um olíuleka. Bæjaryfirvöld eru í beinum samskiptum við aðgerðastjórn á strandstað og munu fylgjast náið með framvindu málsins.
Engin merki um olíuleka
Flutningaskipið Akrafell strandaði við Vattarnes um fimm leytið í morgun á leið frá Akureyri til Reyðarfjarðar.
Enginn merki hafa verið um að olía leki frá skipinu. Í varúðarskyni hefur olíuvarnargirðing verið dregin út. Þá verður frekari mengunarvarnarbúnaður fluttur á strandstað með varðskipinu Þór.
Dælur og mannskapur var um borð í morgun til að dæla sjó úr skipinu. Leki hefur verið verulegur og gæti það bent til umtalsverðra skemmda á botni þess. Ekki verður reynt að setja skipið á flot fyrr en skemmdir hafa verið fullkannaðar af köfurum ásamt þeim slökkviliðs- og björgunarmönnum sem meta ástand þess um borð.
Í stað þess að beygja inn Reyðarfjörðinn á leið sinni frá Akureyri, hélt Akrafell óbreyttri stefnu allt þar til það strandaði í aðgrynningum við Vattarnes í mynni fjarðarins. Engin slys urðu á 13 manna áhöfn skipsins.
Aðgerðaráætlun Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu hefur verið virkjuð vegna strandsins. Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út þegar tilkynning barst. Fyrstu björgunarskip voru komin á vettvang um tuttugu mínútum eftir útkall.
Bæjaryfirvöld eru í beinum samskiptum við aðgerðastjórn og Umhverfisstofnun vegna málsins og munu fylgjast náið með framvindu þess.
Skipverjar á Aðalsteini Jónssyni SU komu dráttartaug um borð í Akrafelli í morgun. Varðskipið Ægir fer með vettvangsstjórn, en fram að komu þess fór björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað með vettvangsstjórnina.
Akrafell bættist við flota Samskipa fyrir um ári. Það var smíðað árið 2013 í Kína og er systurskip Pioneer Bay sem hefur verið við strandsiglingar hér á landi. Talið er að um 140 m3 af svartolíu og um 40 m3 af dísilolíu séu um borð í skipinu.
Sjá viðtal viðtal RÚV við Þórhall Árnason, lögregluvarðstjóra Eskifirði á strandstað