Hernámsdagurinn fór fram á Reyðarfirði sunnudaginn 29.júní. Söguganga og skemmtun í Íslenska stríðsárasafninu í boði Leikfélags Reyðarfjarðar og Fjarðadætra.
Fræðandi og frábær skemmtun
Hernámsdagurinn fór fram á Reyðarfirði í gær með sögugöngu og skemmtun í Íslenska stríðsárasafninu í boði Leikfélags Reyðarfjarðar og Fjarðadætra. Offiserar og fínar frúr settu svip á bæinn, þegar sögugangan hélt af stað frá Molanum upp með Búðarárgili. Sögumaður var Einar Þorvarðarson og hlaut hann í tilefni dagsins heiðursfylgd prúðbúinna dáta. Göngunni lauk við Íslenska stríðsárasafnið, þar sem leikfélagið sýndi valin atriði úr leikþætti, sem frumsýndur verður á setuliðsskemmtuninni í kvöld.
Í einu atriðanna er fjallað með gamansömum hætti um þá örðugleika sem sett gátu svip á samskipti hermanna og heimamanna, sem létu takmarkaða enskukunnáttu ekki aftra sér, enda þótt móðurmálið geti þýtt allt annað en til stendur með enskum framburði.
í hernámsbragga stríðsárasafnsins fór svo fram söngskemmtun Fjarðadætra, að loknu stuttu ávarpi Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, og að því búnu sýndi Braggabíóið sígildu stríðsáramyndina Casablanca. Þá bauð Rafveita Reyðarfjarðar gestum Coca Cola og Prins Polo í tilefni dagsins.
Þá lék norski fiðluleikarinn frá Álasundi, Hugo Hilde, fyrir gesti hernámsdagsins í boði Hrynfarar / Rythmeför. Fiðlan hans er mikil gersemi, smíðuð árið 1789, og lék hún bókstaflega í höndum þessa unga snillings.