Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti einum rómi fjárhags- og starfsáætlun áætlun næsta árs. Lýstu bæjarstjóri og bæjarfulltrúar ánægju með þá samstöðu sem náðist um afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2015 samþykkt samhljóða
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag fjárhags- og starfsáætlun næsta árs ásamt fjárhagsáætlun 2016 - 2018. Lýstu bæjarstjóri og bæjarfulltrúar ánægju með þá samstöðu sem náðist um afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar.
Um síðari umræðu bæjarstjórnar var að ræða. Í kynningu Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, kom m.a. fram, að fjárhagsáætlun næsta ár treysti enn frekar í sessi góðan árangur undanfarinna ára í fjármálum sveitarfélagsins. Háar útsvarstekjur, hátt atvinnustig og sterk staða fyrirtækja í Fjarðabyggð geri sveitarfélaginu kleift að takast af krafti við rekstur þess og skuldir á komandi árum. Árangur sé þó enn háður því að aðhalds og hagræðingar sé gætt í rekstri sveitarfélagsins, en án þess þó að gæði grunnþjónustunnar skerðist. Mikill einhugur sé um að þjónusta við nærsamfélagið verði með sem besta móti.
Fjárfestingar næsta árs nema um 660 m.kr. Þar af verður rúmum 200 m.kr. varið til nýs leikskóla á Norðfirði, en framkvæmdir við hann hefjast á næsta ári. Gert er ráð fyrir að þeim ljúki á árinu 2016 og nemur heildarkostnaður tæpum 500 m.kr.
Útgjöld til fræðslumála aukast um 100 m.kr. á næsta ári, annað árið í röð. Þá er velferð barnafjölskyldna áfram í fyrirrúmi og benti bæjaristjóri í þeim efnum m.a. á að gjaldskrá leikskóla verði óbreytt þriðja árið í röð og skólamáltíðir lækki um 5%. Þá verður tekinn upp systkinaafsláttur á milli leikskóla og frístundaheimila.
Skuldir sveitarfélagsins munu lækka um ríflega milljarð króna á tímabilinu 2014 - 2018 eða úr 9,3 í 8,1 milljarð kr. Lögbundnu skuldaviðmiði verður náð í árslok 2015, sem er nokkru fyrr en upphaflega áætlanir gerðu ráð fyrir.
Sjá fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2015 (pdf)
Sjá fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2016 - 2018 (pdf)
Sjá starfsáætlun Fjarðabyggðar 2015 (pdf)