mobile navigation trigger mobile search trigger
16.05.2014

Fjölbreyttir styrkir við vorúthlutun Alcoa

Vorúthlutun úr styrktarsjóði Alcoa Fjarðaráls og samfélagssjóði Alcoa fór nýlega fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Hæstu styrkina hlutu Björgunarsveitin Hérað og Veraldarvinir, en aldursforseti styrkiþega var Vilhjálmur Hjálmarsson.

Fjölbreyttir styrkir við vorúthlutun Alcoa
Styrkþegar saman komnir í Eskifjarðarkirkju. Fremstur fyrir miðju er Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. ráðherra sem hlaut ásamt bókaútgáfunni Hólum styrk til útgáfu á Örnefnum í Mjóafirði, bók sem Hólar munu gefa út. Þess má geta að bókin hefur verið í vinnslu í 70 ár. Vilhjálmur hefur einsett sér að koma bókinni út áður en hann verður 100 ára í haust.

Vorúthlutanir styrkja úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) fóru fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þann 14. maí. Að venju voru veittir styrkir af fjölbreyttum toga, bæði á sviði íþrótta- og menningarmála, en einnig á sviði mennta- og ferðamála.

Alcoa Fjarðaál veitti 29 styrki, alls að upphæð 21 milljón króna. Hæsta styrkinn frá Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls hlaut að þessu sinni Björgunarsveitin Hérað, eina milljón króna, vegna kaupa á sérstakri búnaðarkerru til nota við hópslysabjörgun. Í kerrunni verða meðal annars sjúkrabörur, teppi, spelkur og annar nauðsynlegur sjúkrabúnaður. Með styrknum vill Fjarðaál styrkja enn frekar getu björgunarsveitanna á svæðinu til að takast á við umfangsmiklar björgunaraðgerðir. Á vegum Alcoa Foundation voru veittir tveir styrkir, annars vegar til Veraldarvina og hins vegar í nýtt verkefni Alcoa hér á landi sem nefnist Synir og dætur (Sons & Daughters) og er sá styrkur ætlaður börnum starfsmanna Alcoa sem eru á leið í háskólanám.

Veraldarvinir hlutu 25 þúsund dollara styrk, um 2,8 milljónir króna, vegna starfsemi samtakanna á Austurlandi. Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og vinna að margvíslegum samfélagsverkefnum árið um kring um allt land. Á þessu ári gera samtökin ráð fyrir að taka á móti 1.500 erlendum sjálfboðaliðum til að starfa við 130 tveggja vikna verkefni, þar af um 650 manns vegna verkefna í Fjarðabyggð.

Marteinn Gauti Kárason hlaut styrk til háskólanáms samtals 4000 dollara, tæpa hálfa milljón króna, sem greiddur verður á næstu fjórum árum. Marteinn er að ljúka námi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og hyggst hefja nám í viðskiptafræði í haust.

Vert er að geta þess að aldursforsetinn í hópi styrkþega var Mjófirðingurinn Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrv. ráðherra en hann verður 100 ára í haust. Vilhjálmur hlaut styrk fyrir væntanlega bók sína, Örnefni í Mjóafirði. Markmið Vilhjálms er að koma bókinni út fyrir stórafmælið en bókin á sér langan aðdraganda þar sem Vilhjálmur greindi frá því að hann hefði byrjað á henni fyrir 70 árum, árið 1944.

Sjá frétt frá Alcoa Fjarðaáli um vorúthlutunina

Sjá ítarefni frá Alcoa Fjarðaráli um vorúthlutunin

 

 

Fleiri myndir:
Fjölbreyttir styrkir við vorúthlutun Alcoa
Kjartan Benediktsson (t.v.) tekur við styrk fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Héraðs.
Fjölbreyttir styrkir við vorúthlutun Alcoa
F.v. Dagmar Ýr Stefánsdóttir hjá Alcoa Fjarðaáli, Þórarinn Ívarsson, framkvæmdastjóri Veraldarvina, Marteinn Gauti Kárason og Magnús Þór Ásmundsson hjá Alcoa á Íslandi.
Fjölbreyttir styrkir við vorúthlutun Alcoa
Þeir Stefán Már Guðmundsson og Hjálmar Jóhannesson voru kampakátir þegar þeir tóku fyrir styrk fyrir verkefni sem kallast Orkuboltar.

Frétta og viðburðayfirlit