Losun flúors ætti ekki að valda íbúum á Reyðarfirði áhyggjum. Mælingar staðfesta að öll gildi hafa frá því að álverið tók til starfa verið innan hollustu- og heilsuverndarmarka starfsleyfis. Fjallað var ýtarlega um flúor og umhverfi á íbúafundi á Reyðarfirði.
Fulltrúar Umhverfistofnunar (UST) og Matvælastofnunar (MAST) fjölluðu um áhrif flúors og eftirlit með losun þess á íbúafundi á Reyðarfirði. Boðað var til fundarins í kjölfar þess að í sumarbyrjun fóru stakar flúormælingar í grasi yfir viðmiðunarmörk fyrir heilfóður grasbíta.
Matvælastofnun hefur eftirlit með öryggi matvæla og neytendaöryggi. Um áhrif losunar í þeim efnum nefndi Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir hjá umdæmisskrifstofu MAST á Austurlandi, að fullorðinn einstaklingur þyrfti á einum degi að innbyrða að minnsta kosti 158 kg af berjum eða káli, ætti honum að verða meint af. Er þá miðað við mesta efnisstyrk flúors sem mældist á berjum næst álverinu í sumar.
Þetta dæmi sýnir glöggt að mati MAST, að ekkert sé því til fyrirstöðu að neyta berja og matjurta af svæðinu.
Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri mengunareftirlits UST, talaði að hálfu Umhverfisstofnunar. Benti Sigríður m.a. á að flúormælingar lúti að hluta til eftirliti með velferð grasbíta og mikilvægt sé að greina á milli þeirra viðmiðunarmarka annars vegar og viðmiða í starfsleyfi hins vegar gagnvart heildarlosun á flúor.
Eftirlit með losun snúi að stóru myndinni, áhrifum á umhverfi og íbúa, og mælingar staðfesti að öll efnislosun frá álverinu sé innan verndarmarka starfsleyfis. Það eigi jafnt við flúor sem aðra losun og almenningi sé því ekki hætta búin af þeim völdum.
Á hinn bógin sé það stöðugt áhyggjuefni að grasbítar eru viðkvæmir gagnvart flúor, einkum smærri eins og sauðfé. Þolmörk þess eru lág, margfalt lægri en hjá mönnum til samanburðar.
Aðstæður á Reyðarfirði valda því að flúor safnast upp á afmörkuðum stöðum í samspili við veður og vinda. Umhverfisstofnun hefur af þessum sökum ákveðið, í samráði við Matvælastofnun og Alcoa Fjarðaál, að auka vöktun grasbíta að umfangi, svo byggja megi upp skýrari mynd af heildaráhrifum þessarar uppsöfnunar á svæðinu á þá.
Enda þótt meðaltalsgildi flúors séu innan viðmiðunarmarka fyrir grasbíta og heildurlosun flúors farið minnkandi á milli ára, sveiflast gildin það mikið til í takti við verðurfar, að vakta verður grasbíta betur en áður, samhliða mælingum í grasi. Sú vöktun fer fram með flúormælingum í kjálkabeinum og sjónskoðun á tönnum.
Þá voru íbúar á Reyðarfirði hvattir til að hafa samband við UST eða MAST varðandi nánari upplýsingar og útskýringar eða ábendingar eða kvartanir til hlutaðeigandi eftirlitsstofnana.
Að kynningum eftirlitsstofnana loknum tók Eiður Ragnarsson, formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar saman efni fundarins í stuttu máli. Einnig undirstrikaði hann mikilvægi þess að miðlun upplýsinga miði að því að koma í veg fyrir misskilning eða rangtúlkanir á raunstöðu mála.
Fundarstjóri var Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, og kynnti hann í lok fundarins almenna upplýsingasíðu á fjardabyggd.is, sem verið er að leggja á síðustu hönd hjá sveitarfélaginu um umhverfi og álver.
Í fyrirspurnum og umræðum kom m.a. fram að þar sem losun álversins er innan verndarmarka, er að mati UST mjög ólíklega um neikvæð umhverfisáhrif að ræða á jurta- eða dýraríki umfram þau sem gætu verið til staðar gagnvart grasbítum, eins og áður segir. Loftgæðimælingar staðfesti einnig að fólki með viðkvæm öndunarfæri eða öndurfærasjúkdóma ætti ekki að finna fyrir óþægindum.
Enn fremur kom fram að við þynningu flúors samlagist hann jarðvegi við það að mynda ný og torleyst efnasambönd. Hafa megi í huga í þessu sambandi að flúor sé eitt algengasta frumefni náttúrunnar, ekki hvað síst hér á landi sökum virkra eldsstöðva.
Kynning Sigríðar Kristjánsdóttur UST
Kynning Eyrunar Arnardóttur MAST - búfé
Kynning Eyrúnar Arnardóttur MAST - matjurtir
Dagskrá íbúafundarins
Sjá má þátttakendur hér að neðan (f.v.) Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, Sigrún Ágústsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir, UST, Eiður Ragnarsson, Fjarðabyggð, Magnús Ásmundsson og Geir Sigurpáll Hlöðversson, Alcoa Fjarðaáli og Eyrún Arnardóttir, MAST. Fundurinn fór fram í Grunnskóla Reyðarfjarðar. (Ljósmynd: Hilmar Sigurbjörnsson)