mobile navigation trigger mobile search trigger
13.08.2014

Flúorlosun frá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði

Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd fundaði með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sl. mánudag. Nefndin telur ljóst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði. Stefnt er á íbúafund á Reyðarfirði um miðjan september.

Flúorlosun frá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði
Horft yfir Reyðarfjörð

Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd fundaði með fulltrúum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sl. mánudag. Nefndin telur ljóst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði. Stefnt er á íbúafund á Reyðarfirði um miðjan september. 

Samþykkt var eftirfarandi bókun:

"Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd fundaði með  fulltrúum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar sl. mánudag. Nefndin telur ljóst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja, að almenningi stafar ekki hætta af flúorlosun frá Alcoa Fjarðaáli í Reyðarfirði.

Stakar flúormælingar fela af margvíslegum ástæðum í sér afar takmarkað upplýsingagildi og mynda langtímamælingar af þessum sökum þann viðmiðunarkvarða sem gæta verður að í þessu sambandi. Mælingar hafa staðið óslitið yfir frá því að álverið í Reyðarfirði hóf starfsemi og er ekkert í þeim niðurstöðum sem bendir til þess að íbúum sé hætt vegna flúorlosunar álversins.

ESU leggur þunga áherslu á mikilvægi þess fylgst sé af kostgæfni með mögulegum hættum sem íbúum og umhverfi kann að stafa af losun lofttegunda frá umræddri starfsemi. Á það ekki einungis við um sjálfar mælingarnar og úrvinnslu þeirra heldur einnig upplýsingamiðlun til almennings. 

Nefndin leggur ekki síður þunga áherslu á, að Alcoa Fjarðaál framfylgi áfram, sem hingað til, ýtrustu varúðarreglum gagnvart mögulegum umhverfisáhrifum og aðgæti með reglubundnum hætti hvort ástæða sé til að herða slíkar reglur enn frekar eða framkvæmd þeirra.

Í ljósi þess að fréttaflutningur af flúormælingum í Reyðarfirði hefur ítrekað og að nauðsynjalausu vakið áhyggjur hjá íbúum í Fjarðabyggð af heilsufarslegu öryggi, beinir ESU því til bæjarstjórnar að hlutlægar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar íbúum á vef sveitarfélagsins, í samstarfi við fagaðila og fræðimenn s.s. hjá Náttúrustofu Austurlands, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og háskólasamfélaginu. Sú staða er ekki ásættanleg fyrir Fjarðabúa að þeir telji ástæðu til að vantreysta áhrifum nánasta umhverfis á líf sitt og heilsu, eigi það ekki við full rök að styðjast. 

ESU leggur einnig til við yfirstjórn Umhverfisstofnun og Matvælastofnunar, að kannað verði hvort leggja þurfi, í samskiptum þessara stofnana við fjölmiðla, aukna áherslu á faglega og gagnsæja miðlun upplýsinga til almennings."

Frétta og viðburðayfirlit