mobile navigation trigger mobile search trigger
11.09.2014

Hætta á blámóðu um allt Austurland

Spár Veðurstofunnar gefa til kynna háan styrk brennisteinsgasa á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði. Stærra svæði er ekki útilokað. Fólk er hvatt til að hafa varann á, finni það til óþæginda.

Hætta á blámóðu um allt Austurland
Hér má sjá blámóðu yfir Vopnafirði síðastliðinn laugardag, en þá mældust gildi há á Reyðarfirði. Gera má ráð fyrir að há gildi þar geti falið í sér vísbendingar um há gildi víðar á Austfjörðum, allt eftir vindáttum. (Mynd: Magnús Már Þorvaldsson).

Veðurstofan varar á vef sínum við háum styrk brennisteinsgasa frá eldgosinu. Gert er ráð fyrir að svæðið frá norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði verði fyrir mestum áhrifum. Stærra svæði er ekki útilokað.

Almannavarnir undirbúa nú útgáfu á almennum leiðbeiningum til íbúa á Austurlandi vegna hættunnar á gosmengun. Leiðbeiningar verða birtar hér á vef Fjarðabyggðar og á Facebook-síðu sveitarfélagsins um leið og þær berast. Auk þess verður þeim dreift í hvert hús um leið og unnt er.

Þá er Umhverfisstofnun með upplýsingaveitu í undirbúningi á vef sínum ust.is og Veðurstofan mun framvegis gefa út á vef sínum vedur.is viðvaranir m.v. magn mengunarefna frá gosinu í Holuhrauni og vindaspá.

Á meðan blámóða er til staðar er mikilvægt að bregðast rét við. Öndun um nef í stað munns dregur úr áhrifum loftmengunar og fullfrískt fólk ætti ekki að vera í líkamlegri áreynslu utandyra. Börn og þeir sem eru veikir fyrir eiga að vera inni með lokaða glugga. Slökkva þarf á loftræsingu þar hún er til staðar.

Fólk sem er viðkvæmt fyrir eins og börn og fullorðnir með astma og aðra sjúkdóma í öndunarfærum eða hjartasjúkdóma getur fundið fyrir óþægindum og ætti að forðast mikla áreynslu. Fólk sem notar innöndunarlyf vegna lungnasjúkdóma gæti þurft að auka lyfjaskammtinn í samráði við sinn lækni. Mikilvægt er að sjúklingar hugi að því að hafa lyf sín tiltæk. 

Fylgjast má með loftgæðamælingum í rauntíma á loftgaedi.is. Síðan fyrir Reyðarfjörð opnast á mælingum á Egilsstöðum. Velja þarf Reyðarfjörður opinn og smella á miðju grafið til hægri til að sjá betur mælingar á Reyðarfirði. Hæstu gildi fóru þar yfir 700 míkrógrömm á rúmmetra í dag laust eftir hádegi, en gengu eftir það hratt niður. Hættumörk eru við 350 míkrógrömm og viðvörunarmörk við 500 míkrógrömm. Loftgæðismörk liggja við 125 míkrógrömm á rúmmetra.

Frétta og viðburðayfirlit