Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, heimsótti Austurland, föstudaginn 5. desember, en heimsóknin hafði staðið til í nokkurn tíma.
Heimsókn heilbrigðisráðherra til Fjarðabyggðar
Um morguninn heimsótti Kristján Hulduhlíð, nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði, og hitti þar forstöðumann, starfsfólk og íbúa, en Kristján Þór var forfallaður þegar Hulduhlíð var vígð, laugardaginn 18. október sl. Heilbrigðisráðherra var í fylgd með forstjóra HSA og hluta af framkvæmdarstjórn, en í Hulduhlíð hitti hann m.a. formann bæjarráðs Fjarðabyggðar, forseta bæjarstjórnar, sem jafnframt er formaður félagsmálanefndar, félagsmálastjóra og varaformann félagsmálanefndar. Þar var rætt m.a. um málefni eldri borgara, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er snýr að hjúkrunarheimilum, heimahjúkrun og heimaþjónustu.
Eftir heimsókn í Hulduhlíð var haldið til Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN), þar sem gjafir til Umdæmissjúkrahúss Austurlands voru tilkynntar eða afhentar, alls að verðmæti kr. 17.140.600.
Um er að ræða nýja svæfingavél fyrir skurðstofu FSN, tíu ný sjúkrarúm með dýnum og fylgihlutum fyrir sjúkradeild, ásamt nýjum skoðunar- og bráðabekkjum fyrir heilsugæslu og skurðstofu FSN. Gefendur eru SÚN & OÚN, ásamt Líknarfélaginu Hosunum, sem er félag á vegum starfsmanna. Þá var tilkynnt um gjöf frá Félagi austfirskra kvenna í Reykjavík, sem gáfu 250 þúsund til tækjakaupa á blóðskilunardeild FSN.
Eftir hádegið fór ráðherra til Egilstaða, skoðaði m.a. hjúkrunarheimili í byggingu og átti fund með framkvæmdastjórn HSA.