Samkvæmt ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir árið 2013, hafa skuldir sveitarfélagsins í hlutfalli við tekjur lækkað hraðar á milli ára en gert var ráð fyrir. Ársreikningur sveitarfélagsins var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 10. apríl sl.
Hraðari niðurgreiðsla skulda en áður var áætlað
Samkvæmt ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir árið 2013, hafa skuldir sveitarfélagsins í hlutfalli við tekjur lækkað hraðar á milli ára en gert var ráð fyrir.
Ef fram heldur sem horfir verður 150% lögbundnu skuldaviðmiði náð árið 2016 eða tveimur árum fyrr en áætlað er, að því gefnu að aðhalds verði áfram gætt í rekstri.
Ársreikningurinn var nýlega lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn af Páli Björgvini Guðmundssyni, bæjarstjóra. Í máli hans kom m.a. fram að tekjur sveitarfélagsins fóru hækkandi, um leið og rekstrarútgjöld séu í samræmi við það sem stefnt var að. Það gefi sveitarfélaginu aukið svigrúm til að greiða niður skuldir sínar og ná markmiðum fjárhagslegra viðmiða sem sett hafa verið fyrr en áætlað var. Skuldsetning sveitarfélagsins sé engu að síður yfir lögboðnum viðmiðum og verði af þeim sökum að gæta áfram aðhalds í rekstri.
Á heildina litið var rekstur samstæðu sveitarfélagsins jákvæður um 938 millj. kr. á síðasta ári, þar af var rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 286 millj. kr. Til samanburðar má nefna að afgangur af rekstri samstæðu var 444 millj. kr. á árinu 2012 og 9 millj. kr. í A hluta.
Auk aðhalds í rekstri, má í megindráttum rekja batnandi afkomu sveitarfélagsins til þess, að neikvæð áhrif verðlagsbreytinga urðu minni en vænst var á sama tíma og samanlagðar tekjur sveitarfélagsins jukust. Koma þar við sögu ýmsir ólíkir þættir, s.s. aukin umsvif atvinnulífs í Fjarðabyggð, íbúafjölgun og styrking krónunnar. Einnig vegur skuldaleiðrétting á skuldbindingum við Íslandsbanka umtalsvert í heildarmyndinni.
Ársreikningur Fjaraðbyggðar fyrir árið 2013
Greinargerð bæjarstjóra með ársreikningi 2013
Frétt frá Fjarðabyggð ásamt ágripi úr ársreikningi 2013