Þjóðarátaki hefur verið hrundið af stað vegna söfnunar á skjölum kvenna. Að átakinu standa söfn landsins og er markmiðið að varðveita persónuleg gögn sem veita innsýn í líf kvenna og sögu þjóðarinnar.
Kallað eftir skjölum kvenna
Hélt mamma dagbók? Var amma skúffuskáld? Eru bréf langömmu í geymslunni?
Nú í ár fagna landsmenn 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni efna Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, ÞjóðskjalasafnÍslands og héraðsskjalasöfnin til þjóðarátaks um söfnun á skjölum kvenna og hvetja landsmenn til að afhenda þau á skjalasöfn. Bréf, dagbækur og önnur persónuleg gögn geta veitt innsýn inn í líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra en einnig varpa þau ljósi á sögu lands og þjóðar.
Því miður er það staðreynd að skjöl kvenna skila sér síður inn á söfnin en skjöl karla og þykir starfsmönnum safnanna því tilhlýðilegt að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með því að minna á mikilvægi þessara gagna og hvetja landsmenn til að stuðla að varðveislu þeirra með því að koma þeim í örugga geymslu. Er þar t.d. átt við bréf, dagbækur, handskrifaðar matreiðslubækur, póstkort, teikningar, ljósmyndir, kvæði, smásögur og ýmsan fróðleik sem vert er að halda upp á, ásamt handritum sem voru í eigu kvenna.
Tekið er við skjölunum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Kvennasögusafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands og héraðsskjalasöfnum og eru starfsmenn safnanna boðnir og búnir að veita ráðgjöf og aðstoð varðandi frágang og skil á gögnunum.
Nánari upplýsingar veitir Pétur Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunar Fjarðabyggðar, 470 9000, petur.sorensson@fjardabyggd.is.