Anna Margrét Sigurðardóttir frá Neskaupstað var nýlega kjörin formaður samtakanna Heimilis og skóla.
Hún er fyrsti formaður samtakanna af landsbyggðinni en hún hefur setið í stjórn þeirra undanfarin fjögur ár.
Nýr formaður Heimilis og skóla
Anna Margrét Sigurðardóttir frá Neskaupstað var nýlega kjörin formaður samtakanna Heimilis og skóla. Hún er fyrsti formaður samtakanna af landsbyggðinni en hún hefur setið í stjórn þeirra undanfarin fjögur ár.
Hún sat í stjórn foreldrafélags Seyðisfjarðarskóla árin 2000-2003 og hefur verið formaður foreldrafélags Nesskóla í Neskaupstað frá árinu 2005. Hún hefur einnig verið fulltrúi foreldra í skólaráði Nesskóla frá árinu 2010 og formaður og einn af stofnendum Fjarðaforeldra, svæðisráðs foreldrafélaga í Fjarðabyggð, frá árinu 2009.
Anna Margrét situr auk þess í foreldraráði og forvarnaráði Verkmenntaskóla Austurlands. Hún hlaut
Dugnaðarforkaverðlaun Heimilis og skóla þegar Foreldraverðlaunin voru afhent árið 2010.
Anna Margrét er lyfjafræðingur að mennt. Hún starfaði sem sérfræðingur hjá lyfjafræðideild Háskóla Íslands 1992-1995, vann hjá Ómega Pharma 1995-1995, var lyfsali á Seyðisfirði 1996-2003 og lyfsali í Neskaupstað 2003-2006. Frá árinu 2006 hefur hún verið heimavinnandi og í afleysingum.
Anna Margrét er gift Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar. Þau eiga fimm syni og einn sonarson.
Hún tekur við formennskunni af Katli B. Magnússyni.
Frétt af www.austurfrett.is