Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt nýtt miðbæjarskipulag fyrir Neskaupstað. Aðlaðandi ásýnd og athafnarými fyrir fjölbreyttara mannlíf er á meðal meginmarkmiða þess.
Skipulagssvæðið nær til allrar byggðar á miðsvæði Neskaupstaðar ásamt aðliggjandi byggð. Afmörkun þess nær frá Víkurbratta til vesturs, Miðstræti, Sverristúni og Mýrargötu til norðurs, opnu svæði við Neslæk og skólalóð til austurs, og strandlínu til suðurs frá Neslæk að Víkurbratta. Þarna er því saman komin þungamiðja byggðarinnar með meginhluta verslana, stofnana og þjónustufyrirtækja.
Í heild sinni er miðbæjarsvæðið 14,8 ha að stærð og hefur það tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina samfara breyttum atvinnuháttúm, s.s. í verslun og sjávarútvegi, en ekkert deiluskipulag hefur verið í gildi fyrir svæðið.
Á meðal þess sem tillagan felur í sér eru skilgreiningar á miðbæjargötu og –torgi og bætt aðgengi að Listigarðinum í Neskaupstað og sundlauginni. Öruggar umferðarleiðir fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur eru einnig skilgreindar og fyrirkomulagi bygginga, gatna og nýrra stíga þannig háttað að það styrki bæði og efli ásýnd miðbæjarins og veiti honum heildstætt yfirbragð.
Gert er ráð fyrir tveimur torgum eða Egilstorgi við Safnahúsið í Neskaupstað og Rauðatorgi við Hólsgötu og Stekkjargötu.
Í aðalskipulagi Fjarðabyggðar segir m.a. að nýju miðbæjarskipulagi sé ætlað að nýta til fulls það svigrúm sem er til staðar tíl að fella núverandi byggð og nýbyggingar að hlutverki svæðisins sem miðkjarna byggðarinnar í Norðfirði. Leitast eigi við að fylla í eyður þar sem tækfæri er til og beina nýrri verslun og þjónustu í miðbæinn. Þá eigi að stuðla að aðlaðandi ásýnd byggðarinnar með áherslu á vandaðan frágang torgsvæða og götu. Auk þess að vernda elstu byggingar, verði einnig leitast við að nota náttúrulega náttúruleg efni og liti sem vísa til einkenna fjarðarins og sögu byggðarinnar.
Lokakynning á nýja miðbæjarskipulaginu fór fram í sumar sem leið.
Deiliskipulagstillaga þess var unnin af Landmótun fyrir Fjarðabyggð.