mobile navigation trigger mobile search trigger
17.01.2014

Óvissuástand í gildi fyrir Austfirði

Óvissustig var í morgun sett á fyrir Austfirði vegna snjóflóðahættu. Engin hætta er talin á snjóflóðum í byggð. Þeir sem eru á ferð um fjallvegi, eða í fjallendi utan byggða, eru á hinn bóginn beðnir um að hafa varann á sér og huga að aðstæðum.

Óvissuástand í gildi fyrir Austfirði
Úrkomuspá Veðurstofu Íslands fyrir 17. janúar 2014.
Í morgun var sett á óvissustig vegna snjóflóðahættu fyrir Austfirði. Í því felst að daglegar athuganir, vöktun og mat er aukið frá því sem er dags daglega.

Ekki er talin yfirvofandi hætta á snjóflóðum í byggð í Fjarðabyggð.

Ástæðan fyrir óvissutiginu er að mikil úrkoma hefur verið undanfarna daga, rigning á láglendi en snjór til fjalla. Spýjur og flóð geta farið af stað við slíkar aðstæður og hefur m.a. nokkuð stórt og vott snjóflóð fallið úr Svartafjalli við Oddsskarð. Er talin hætta á að fleiri slík flóð geti fallið. Engin hætta er þó talin á slíku í byggð.

Full ástæða er til að hvetja þá sem eru á ferð um fjallvegi, eða í fjalllendi utan byggða, að hafa varann á sér og huga vel að öryggi og aðstæðum. 

Upplýsingar um ofanflóð eru á vef Veðurstofu Íslands. Þar má nálgast nýjustu upplýsingar um stöðumat á hverjum tíma ásamt skilgreiningum á hættustigum.

Frétta og viðburðayfirlit