Í dag var ritað undir samning við Launafl EHF um uppsteypun og grunnlagnavinnu við nýtt íþróttahús á Reyðarfirði.
Ritað undir verksamning vegna vinnu við uppsteypun á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði
Það voru þeir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls, sem undirrituðu samning um verkið á skrifstofum Mannvits á Reyðarfirði í dag. Auglýst var eftir tilboðum í nóvember og á grundvelli þeirra tilboða sem bárust var ákveðið að ganga til samninga við Launafl.
„Með þessari undirritun hefst næsti áfangi að vinnu við nýtt íþróttahús á Reyðarfirði sem er sannarlega mjög ánægjulegt. Síðan heldur áfram vinna við aðra verkþætti og ef allt gengur að óskum ætti að vera hægt að taka nýtt hús notkun á haustdögum. “ sagði Jón Björn Hákonarson við þetta tilefni, „Hér um að ræða glæsilega byggingu, sem bætist í flóru þeirra öflugu íþróttamannavirkja sem við eigum þegar í Fjarðabyggð og rennir það þannig fleiri stoðum undir öflugt íþrótta- og tómstundastarf sem fram fer í sveitarfélaginu.“ sagði Jón Björn að lokum.
Vinna við verkið hefst fljótlega og eiga undirstöður undir íþróttahúsið að vera klárar þann 20. mars nk. og verður þá hægt að hefjast handa við að reisa húsið. Gert er ráð fyrir að vinnu við uppsteypun og grunnlagnir verði lokið síðan lokið í maí.
Á myndinni hér til hliðar má sjá þá Jón Björn og Magnús Helgason slá saman olnbogum að lokinni undirritun í dag.