mobile navigation trigger mobile search trigger
18.06.2014

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar

Austurbrú, Vinnuskóli Fjarðabyggðar ásamt útgerðarfélögunum Eskju, Loðnuvinnslunni og Síldarvinnslunni hafa efnt til samvinnuverkefnis í sumar sem gefur nemendum Vinnuskólans kost á að sækja Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Í ár verður skólinn í boði fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og mun kennsla standa yfir í eina viku.

Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar

Austurbrú, Vinnuskóli Fjarðabyggðar ásamt útgerðarfélögunum Eskju, Loðnuvinnslunni og Síldarvinnslunni hafa efnt til samvinnuverkefnis í sumar sem gefur nemendum Vinnuskólans kost á að sækja Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Í ár verður skólinn í boði fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og mun kennsla standa yfir í eina viku. Fyrirmynd skólans er Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar sem var sambærilegt tilraunaverkefni sem efnt var til í fyrra. Reyndist það verkefni vel og því  við hæfi að skólinn færi út kvíarnar í sumar og fari sem víðast.

Nú er skólinn því samvinnuverkefni fimm aðila og er vonast til að skólinn sé kominn til með að vera. Þeir sem að skólanum koma eru sammála um að mikið vanti upp á í kennslu á sjávarútvegstengdu námi á unglingastigi grunnskóla. Hér forðum fengu unglingar gjarnan þekkingu sína um sjávarútveg með atvinnuþátttöku sinni en nú hafa tímarnir breyst og unglingar starfa ekki jafn mikið við sjávarútveg og áður. Er því hlutverk skólans að fræða unglingana um mikilvægi sjávarútvegs og kynna þau tækifæri sem í honum finnast.

Nemendum Vinnuskólans býðst að sækja skólann á launum í stað hefðbundinnar vinnuviku í Vinnuskólanum. Kennsla fer fram í Sjávarútvegsskólanum sem hér segir:

Neskaupstaður: 23. júní – 27. júní.
Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður:  
30. júní – 4. júlí.
Eskifjörður og Reyðarfjörður: 7. júlí – 11. júlí.

Kennt verður í Neskaupstað, á Eskifirði og á Fáskrúðsfirði. Nemendum frá Reyðarfirði gefst tækifæri til að sækja kennslu á Eskifirði og nemendur frá Stöðvarfirði eiga kost á að sækja kennslu á Fáskrúðsfirði. Kennt verður í þrjár klukkustundir starfsdagana nema föstudag þar sem kennt verður í 8 klukkustundir (samtals 20 klst). Á föstudögum er farið á milli byggðarkjarna og hin ýmsu fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum heimsótt.

Í skólanum verður fjallað um  fiskveiðar, fiskvinnslu, sjávarútveg á Íslandi, gæða- og markaðsmál og stoðgreinar sjávarútvegsins. Eins verður fjallað um fjölbreytileika þegar kemur að náms- og starfsmöguleikum og tækifæri framtíðarinnar.

Skráning fer fram á síðunni www.sjavarskoli.net. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Steinn Einarsson í síma 867-6858.

Allir sem fæddir eru árið 2000 eru hvattir til að sækja skólann í sumar

Frétta og viðburðayfirlit