mobile navigation trigger mobile search trigger
21.11.2014

Stækkun heilsugæslustöðvarinnar á Reyðarfirði

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjallaði á fundi sínum í gær um stækkun heilsugæslustöðvarinnar á Reyðarfirði sem lið í uppbyggingu heilsugæsluþjónustu á Austurlandi.

Stækkun heilsugæslustöðvarinnar á Reyðarfirði

Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að stækka verði húsnæði heilsugæslustöðvarinnar m.t.t. íbúaþróunar undanfarinna ára. Núverandi húsnæði var tekið í notkun árið 2004 og síðar það sama ár kom í ljós að stöðin væri þegar of lítil miðað við umfang starfseminnar. Íbúar á Reyðarfirði voru þá helmingi færri en nú, eða um 600.

Í umræðum bæjarstjórnar kom fram að samhliða því að mæta íbúafjölgun, er stefnt að uppbyggingu miðlægrar heilsugæsluþjónustu svo að tryggja megi íbúum Fjarðabyggðar viðunandi heilsugæsluþjónustu. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós ýmsa veikleika í starfsemi heilsugæslustöðva sem byggja á viðveru eins læknis ásamt hjúkrunarfræðingi.  Því sé afar brýnt að mæta einnig breyttum kröfum á þessu sviði, sem fela í megindráttum í sér uppbyggingu miðlægra stöðva sem tveir eða fleiri læknar vinni við. Með því móti verði unnt að koma aukinni verkaskiptingu og sérhæfingu við í heilsugæslunni, auk þess að efla þjónustuna í heimabyggð meauknu þjónustuframboði.

Einnig kom fram á fundinum að umrædd stækkun á heilsugæslustöðinni á Reyðarfirði, greiði fyrir áframhaldandi uppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Austurlands, HSA, á öldrunarþjónustu í Fjarðabyggð líkt og kemur m.a. fram í viljayfirlýsingu sem Fjarðabyggð og HSA undirrituðu í júní sl.

Lögð var áhersla á í umræðunni, að með miðlægri heilsugæslustöð á Reyðarfirði ætti ekki, og mætti ekki, vega að heilsugæslustöðvum í öðrum bæjarkjörnum, heldur myndu þær áfram gegna mikilvægu hlutverki. Það hlutverk gætu þær á hinn bóginn rækt enn betur en nú, með stuðningi frá öflugri móðurstöð.

Frétta og viðburðayfirlit