Fjölmennasti Kuldaboli til þessa fór fram í Fjarðabyggðahöllinni 11. og 12. október sl. Tæplega 250 þátttakendur af öllu Austurlandi voru að þessu sinni skráð til leiks, en þetta er fimmta árið í röð sem félagsmiðstöðvarnar í Fjarðabyggð bjóða til þessarar skemmtilegu vetrarhátíðar ætluð ungu fólki í 8. til 10. bekk grunnskólans.
Að sögn Guðmundar Halldórssonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa Fjarðabyggðar, voru þrjár smiðjur í boði eða ljósmyndamaraþon, lazertag og risa Tarzanleikur, en sú síðastnefnda byggði á vel út færðum þrautabrautum. Keppt var til sigurs í öllum smiðjum og fór verðlaunaafhending fram um kvöldið. Þá voru einnig tónleikar, grillveisla og varðeldur með söng, auk þess sem kosið var til ungmennaráðs Samféss. Kosningu hlutu Kristján Örn Ríkharðsson og Bríet Ómarsdóttir.
Kuldaboli hefst á laugardagshádegi og stendur í sléttan sólarhring. Hefur Bolinn stækkað og eflst jöfnum skrefum frá því að hann hóf göngu sína árið 2010 með um 150 þátttakendum. Gist er í tjöldum í Fjarðabyggðarhöllinni, þar sem smiðjur og aðrir leikar fara fram. „Þetta eru þrusuflottir krakkar,“ segir Guðmundur ánægður með sitt fólk. „Hér vorum við með 250 ungmenna viðburð sem gekk að öllu leyti upp án vandkvæða og allra vímuefna. Bara gaman og einbeitt gleði við völd hjá krökkunum allan tímann, sem er alveg frábært og eiga þau hrós skilið fyrir glæsilega frammistöðu.“
Styrktaraðilar Kuldabola 2014 eru Einhamar Stöðvarfirði, Íslandsbanki Reyðarfirði og Egilsstöðum, Eskja, SÚN, Síldarvinnslan, Sparisjóður Norðfjarðar og Alcoa Fjarðaál.